Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:13:45 (1447)

1995-11-29 15:13:45# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:13]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að vera bæði ánægður og óánægður með svör hæstv. heilbrrh. Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir samkvæmt fjárlagafrv. að sértekjur vegna þessarar starfsemi eiga að hækka um 24 millj. kr. Miðað við óbreytt umfang þýðir það 100% þátttöku. Er hæstv. ráðherra að segja með þeim tölum sem hún nefndi áðan að frá þessu hafi verið fallið? Ég fagna því ef svo er.

Á hinn bóginn harma ég mjög að leggja eigi nýjar álögur á þennan sjúklingahóp þó að þær séu ekki hærri en 10--15% eins og ráðherra gat hér um. Það eru hærri álögur en engin sérstök rök standa til þess að þarna skuli enn þrengja að.

Ég lýsi yfir ánægju minni með það og vil taka höndum saman með ráðherranum um að það gangi eftir að Tryggingastofnun taki þátt í kostnaði við ferðalög þess fólks sem þessa þjónustu þarf að sækja og mun fylgja því eftir að vilyrði hennar og loforð þar um gangi eftir. Aftur á móti hlýt ég að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar kemur að þeim óráðstöfuðu fjármunum sem fráfarandi ríkisstjórn lagði til hliðar til að ráðast í endurbætur á þessari starfsemi. Það er ekki eingöngu um það að ræða að flytja starfsemina milli húsa og stækka það og endurbæta heldur var einnig um að ræða eins og ráðherra sjálfur gat um að kaupa ný tæki til þess að gera þessa meðferð ódýrari og oft skilvirkari. Ég er að ræða þarna um frystingu fósturvísa og spyr: Af hverju er ekki búið að ráðast í þau kaup? Það er ekkert flóknara en það. Og ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni enn á ný og minna á að fráfarandi ríkisstjórn miðaði þessa aukafjárveiting við það að í þetta mál yrði ráðist einn, tveir og þrír og því yrði lokið nú á þessu sumri þannig að ný og endurbætt starfsemi gæti hafist þar á haustdögum. Þessi sjúklingahópur átti vissulega ekki að standa verr að vígi en áður hvað kostnað við þessa meðferð varðar, en þar á ég við þá gjaldtöku sem nú er lagt til að verði lögð á þennan stóra sjúklingahóp.