Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:19:02 (1450)

1995-11-29 15:19:02# 120. lþ. 43.9 fundur 175. mál: #A vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:19]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er lögð fyrir hæstv. samgrh. og hljóðar svo:

,,Er fyrirhugað að koma greiðfærum vegi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur á vegáætlun á næstunni?``

Um margra ára skeið hefur verið umræða um veg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Kostirnir við slíkan veg eru að sjálfsögðu þeir að þannig næðist afar góð tenging milli Reykjanesskaga og Suðurlands. Vegalengdin milli Grindavíkur og Þorlákshafnar er um 110 km ef farið er um Reykjavík. Þessi vegalengd yrði 60 km ef svokallaður suðurstrandarvegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur yrði byggður upp. Leiðin mundi þannig styttast um 50 km eða um nær helming. Leiðin Hveragerði--Keflavík um Reykjavík mundi styttast úr 95 km í 70 km eða um 25 km. Þannig að við sjáum að kostirnir eru afar miklir við að koma slíkum vegi á.

Aðalkostirnir eru að við mundum tengja þannig atvinnusvæði, þ.e. Suðurland og Reykjanesskagann. Þetta yrði afar hagkvæmt fyrir íbúana. Við mundum líka opna fyrir mikla möguleika í flutningi á vörum og afurða milli svæða, svo sem fisks, og það gæti tengst flugi sem er auðvitað í Keflavík. Það yrðu einnig miklir möguleikar í ferðaþjónustu ef þessi hringtenging kæmist á, eða tenging á milli Suðurlands og Reykjanesskaga. Við vitum öll að það eru farnar heilmiklar ferðir af ferðamönnum um þetta svæði og þeir mundu þá geta nýtt sér þessa leið. Það eru farnar núna í dag stuttar ævintýraferðir frá ýmsum fyrirtækjum í útlöndum, bæði upp á Vatnajökul og í Bláa lónið. Þetta gætu orðið mjög stuttar og skemmtilegar ferðir ef þessi vegur væri kominn.

Síðast en ekki síst mundi slíkur vegur auka mjög umferðaröryggi. Hann yrði snjóléttur. Hann mundi minnka verulega álagið á Reykjanesbrautinni þar sem fólk af Suðurlandi mundi sjálfsagt nýta hann og öfugt. Þetta er líka mikið öryggisatriði með tilliti til þess að hugsanlega gæti komið eldgos á Suðurnesjum og þetta væri þá nokkurs konar undankomuleið.

Það er alveg ljóst að Reykjanes hefur komið mjög illa út úr skiptingu á vegafé árum saman. Nú er svo komið að það væri e.t.v. rétt að ræða hvort endurbætur á Reykjanesbrautinni ætti ekki að fá ákveðna meðferð í vegáætlun sem sérstakt þjóðarátak. Hún er tenging höfuðborgarsvæðisins og landsins alls við okkar alþjóðaflugvöll. Þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa rætt bæði það mál og einnig um suðurstrandarveginn, sem hér er til umræðu, við Vegagerðina. Einhverju fé er veitt í kortagerð af þessum vegi og frumhönnun en það var lítið um svör á sameiginlegum fundi okkar með Vegagerðinni um framhaldið.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að framgangur þessa máls er að miklu leyti í höndum okkar þingmanna kjördæmisins. Ég sé samt ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu málsins, sérstaklega í ljósi þeirra svara sem við fengum hjá Vegagerðinni um daginn, og hug hans til þess.