Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:25:59 (1452)

1995-11-29 15:25:59# 120. lþ. 43.9 fundur 175. mál: #A vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:25]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg rétt að það hafa allir áhuga á því að gera vel í sínu kjördæmi og koma samgöngum þar í gott horf. Ég var nú að vonast til að hæstv. ráðherra mundi gefa upp einhverja afstöðu til þeirra hugmynda sem hér komu fram í máli mínu um að taka Reykjanesbrautina út fyrir sviga, eins og það er kallað, og litið yrði á hana sem nokkurs konar þjóðarátak. Það kostar um 700 millj. að gera endurbætur á henni. M.a. felst það í því að lýsa hana og við þingmenn kjördæmisins erum sammála um að það sé mjög brýnt. Það þarf einnig að bæta við þriðju akgreininni og auka þverhallann á henni svo vatn safnist ekki fyrir á brautinni. Þetta kostar hvorki meira né minna en 700 millj. kr.

Okkar kjördæmi hefur farið mjög halloka út úr skiptingu á vegafé þannig að það væri mjög æskilegt að fá eitthvert svar frá ráðherra við þeirri hugmynd hvort hugsanlegt væri að líta á þessa stóru framkvæmd sem þjóðarátak.