Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:35:44 (1457)

1995-11-29 15:35:44# 120. lþ. 43.11 fundur 176. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:35]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til fjmrh. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þegar gengið var frá lagatexta nýrra grunnskólalaga við lok síðasta kjörtímabils voru sett ákvæði inn í 57. gr., þ.e. gildistökugrein laganna, sem takmarka að lögin komi að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 nema í fyrsta lagi að lög um ráðningaréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda hafi verið samþykkt. Í öðru lagi að breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga hafi átt sér stað sem og breytingar á lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Í þriðja lagi að breytingar hafi orðið á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem rétt hafa átt til aðildar að stjórnsjóðnum, áframhaldandi aðild. Fyrirspurn mín fjallar sérstaklega um framgang þeirrar vinnu. Sveitarfélögin eru nú að undirbúa fjárhagsáætlanir sínar og taka aðrar ákvarðanir vegna fyrirhugaðs flutnings grunnskólans. Því er mikilvægt að menn sjái fram úr verkefninu. Það er þeim mun mikilvægara að augljóst er að örlítill glímuskjálfti er kominn í menn og titringur vegna óvissu um málið og fjárhagslega getu sveitarfélaganna til að takast á við verkefnið. Það geta menn m.a. séð af tiltölulega nýrri samþykkt samtaka fámennra skóla þar sem skorað er á stjórnvöld að fresta yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna.

Ekki hvað síst hafa menn áhyggjur af lífeyrismálum og þeim nýju skuldbindingum sem tugir sveitarfélaga eru nú að takast á hendur vegna þessara breytinga. Sveitarfélög sem hafa ekki greitt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna starfsmanna og eru því nýir viðskiptavinir þar ef svo má að orði komast. Því væri æskilegt að fram kæmi í svari ráðherrans auk almenns yfirlits um stöðu málsins hvort tekið er tillit til hinna nýju lífeyrisskuldbindinga sem sveitarfélögin takast á hendur þegar nefndar eru tölur um kostnað sveitarfélaganna við yfirtöku á öllum rekstri grunnskólans. Þær tölur sem hafa verið nefndar þar varðandi kostnað eru að á árinu 1996 muni grunnskólakostnaður verða 6,4 milljarðar og muni hækka um 300 þús. til aldamóta. Jafnframt hefur verið bent á að einungis lífeyrisskuldbindingarnar séu upp á 300--400 millj. á ári. Það væri því fróðlegt að vita hvort tekið er tillit til þessara skuldbindinga þegar fjallað er um þær upphæðir sem þurfi að flytjast frá ríki til sveitarfélaga þegar kemur að þessum flutningi. Einnig væri fróðlegt að fram kæmi hvernig greiðslum verður háttað, þ.e. hvort að iðgjald eða mótframlag atvinnurekanda verði hækkað eða hvernig það verði tryggt að viðkomandi sveitarfélög geti þegar þar að kemur staðið við skuldbindingar sínar. Hér vísa ég til þess mörg þessara sveitarfélaga eru afar fámenn eins og hæstv. ráðherra er kunnugt og mörg þeirra hafa ekki marga starfsmenn í þjónustu sinni og eru ef til vill að hefja greiðslur inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Þá hefur líka verið nefnt í umræðunni að nýir kennarar öðlist aðild nema um annað verði samið og væri fróðlegt að vita hvort farið hefur verið yfir það á hvaða grundvelli slíkir samningar gætu verið og ef eitthvað liggur fyrir um það að það kæmi þá jafnframt fram hér.

En fyrirspurnin snerist að öðru leyti fyrst og fremst um það hvernig þeirri vinnu miðaði að breyta lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þannig að þau tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla sem rétt hafa átt til aðildar að Lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisins aðild að sjóðnum eins og segir orðrétt í 57. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995.