Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:47:37 (1460)

1995-11-29 15:47:37# 120. lþ. 43.11 fundur 176. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég geta þess að atriðin hefur ugglaust borið á góma í þriggja manna nefndinni sem minnst var á varðandi lífeyrismál og tilflutning milli ríkis og sveitarfélaga. Ég vil láta það koma fram að stundum hagar málum þannig að verið er að flytja verkefni frá sveitarfélögum til ríkisins og að það þarf að gæta samræmis þar á milli. En það var ekki sá vettvangur sem ég var að vísa til heldur starfar önnur nefnd sem fjallar um lífeyrismálin almennt, lífeyriskerfið og lífeyrismál, undir forustu Steingríms Ara. Hún hefur fjallað um lífeyrismál mjög almennt en einnig um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En einmitt núna, ég held að það hafi verið í morgun, var skrifað bréf til viðsemjenda ríkisins, þ.e. BHM, kennarafélaganna og BSRB og óskað eftir tilnefningu þeirra í nefnd sem færi sérstaklega í saumana á þeim atriðum sem ég nefndi í ræðu minni og sagði að þyrftu að koma til athugunar til viðbótar lagabreytingum sem nauðsynlegar eru vegna flutnings grunnskólans. Nú kann að fara svo að ekki náist samkomulag um að breyta í öllum atriðum eins og ég taldi upp. Þó að svo verði breytir það ekki því að við þurfum nauðsynlega að koma lagafrv. í gegnum þingið sem dugar til að færa grunnskólann frá ríkinu til sveitarfélaga og á sama hátt að tryggja að sömu leikreglur gildi þegar starfsfólk flyst frá sveitarfélögum til ríkisins en það gerðist fyrir nokkrum árum þar sem ég veit að hv. fyrirspyrjandi þekkir mjög vel til. Og nú, fimm árum síðar eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum.