Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 17:46:56 (1464)

1995-11-29 17:46:56# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[17:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Að sumu leyti voru svör hæstv. heilbrrh. skýr. Það á að taka upp innritunargjöld og það á að rukka þá sem þurfa að leggjast inn á spítala um 4--7 þús. kr. Þetta er það sem hæstv. ráðherra hefur verið að ýja að í fréttum undanfarna daga. Þá liggur það skýrt fyrir. Ég vil hins vegar að gefnu tilefni spyrja hæstv. ráðherra um undantekningarnar sem hún gat um, börn, öryrkjar og barnshafandi konur, hve stór hluti sjúklinga mun þá greiða þessi gjöld miðað við fengna reynslu? Þær tölur liggja fyrir.

Í öðru lagi gengur þetta þvert á það sem hæstv. ráðherra sagði hér sjálfur. Hans skoðun er sú að heilbrigðir eigi að borga en ekki sjúklingar. Maður spyr sig auðvitað, hvaða samræmi er þá í þessum tillöguflutningi hæstv. ráðherra? Það gefur auga leið, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um, að það sem stendur í frv. til fjárlaga eru auðvitað tillögur viðkomandi fagráðherra og þannig hæstv. ráðherra.

Það er einkar undarlegt, virðulegi forseti, að þegar títtnefndur hæstv. ráðherra er nefndur hér til sögu, hefur hann gjarnan þann háttinn á að kalla einstaka hv. þm. stjórnarandstöðu til fylgilags við sig um að koma ákveðnum hugmyndum fram. M.a. hugmyndum um nefskatt. Það vekur upp þá spurningu hvort hæstv. ráðherra hafi borið fram þá tillögu í ríkisstjórninni og verið valtað yfir hann. Með öðrum orðum, er uppi ágreiningur í ríkisstjórninni og er hæstv. heilbrrh. að ganga hér fram með innritunargjöld gegn eigin vilja? Ef svo er, fyrir hvern starfar þá hæstv. ráðherra að þessum málum? Í hvers umboði leggur hún fram þessa tillögu? Starfar hún með öðrum orðum ekki samkvæmt eigin sannfæringu í sínu embætti? Þetta eru auðvitað lykilspurningar sem hv. þingmenn hljóta að eiga heimtingu á að fá svör við.