Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 17:54:31 (1467)

1995-11-29 17:54:31# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[17:54]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka þetta upp hér. Það er vissulega slæmt ef þarf að standa oft á dag upp í þingsölum til þess að taka fyrir aðgerðir og ákvarðanatöku í heilbrigðismálum. Það er slæmt. En það er nú bara þannig að það er ekkert og hefur ekkert samráð verið haft við stjórnarandstöðuflokkana, ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar og þá ekki í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ákvarðanir hafa birst í fjárlögum án þess að þær hafi nokkuð verið ræddar við stjórnarandstöðuna áður eða reynt á samráð. Ég var mjög hissa á því að hæstv. heilbrrh. skyldi leggja það til í frv. til fjárlaga að tekin yrðu upp innritunargjöld á sjúkrahús. Hissa vegna þess að ég þekki mjög vel málflutning hæstv. ráðherra frá því hún var nefndarmaður í heilbr.- og trn. á síðasta kjörtímabili. Ég hefði þess vegna haldið í ljósi þess málflutnings sem hún viðhafði þá að reynt yrði að leita annarra leiða svo sem endurskipulagningar á heilbrigðiskerfinu, úttekt á öllum stofnunum þar sem markað er þjónustusvið hverrar einustu stofnunar og hlutverk. Slík úttekt tæki eitt eða tvö ár og kostaði peninga meðan á henni stæði en skilaði visulega sparnaði til lengri tíma litið. Að leggja til innritunargjöld, 4--7 þús. kr. á hvern þann sem leggst inn á sjúkrahús með þó ákveðnum undantekningum sem hæstv. ráðherra boðaði hér er þessi gjaldtaka úrræði sem ég hefði síst trúað að hæstv. ráðherra mundi mæla með eins og kemur þó fram í frv. til fjárlaga. Það er gott að sumum gefst kostur á að greiða eftir á því að í einstaka tilvikum gerist það nú að fólk er flutt meðvitundarlaust á sjúkrahús og getur þess vegna ekki greitt við komu. Þannig að það er gott að það er þó möguleiki til þess að greiða eftir á.

En ég vil ítreka þakklæti Alþb. til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fyrir að taka þetta mál upp hér. Við munum aldrei samþykkja innritunargjöld með þessum hætti.