Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 17:59:10 (1469)

1995-11-29 17:59:10# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[17:59]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að fulltrúar Framsfl. í þessum sal, hæstv. heilbrrh. og hv. form. fjárln., kvarti yfir því að málið sé rætt hér. En staðreyndin er auðvitað sú að þegar lagt er til að brjóta í fyrsta sinn þjóðarsamstöðu um það að ekki séu lögð innritunargjöld á sjúklinga þá kallar það auðvitað á umræðu. Sérstaklega í ljósi þess að síðustu daga hafa komið fram yfirlýsingar frá stofnunum innan Framsfl. um að slíkur verknaður sé í algjörri andstöðu við stefnu flokksins. Og hæstv. heilbrrh. hefur sagt opinberlega í fjölmiðlum að hann væri tilbúinn til samvinnu við þingið um aðrar leiðir. Ég segi við hæstv. heilbrrh.: Það er aðeins ein leið til að kanna hvort þingið er reiðubúið til þeirrar samvinnu við ráðherrann. Það er að ráðherrann leggi tillögurnar fram hvað sem líður afstöðu innan ríkisstjórnar. Ef Framsfl. leggur þær ekki fram á þinginu til að kanna afstöðu þess, er hann ber að hræsninni, að skjóta sér á bak við það að hugsanlega sé ekki samstaða í þinginu um það sem ráðherrar Framsfl. eru að leggja til.

[18:00]

Framsfl. talaði skýrt á síðasta kjörtímabili og í kosningunum gegn innritunargjöldum. Ég skora á Framsfl. að leggja fram tillögur á þinginu um að það sé ekki gert og ekki mun standa á okkur að styðja það.

Hitt er svo öllu alvarlegra að hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir áðan að innritunargjöldin yrðu innheimt með þeim hætti að fátækt fólk sem ætti ekki 7 þúsund kr. til að borga þau yrði látið skrifa undir skuldaviðurkenningu á sjúkrabeði sínum á spítölunum. Síðan yrðu spítalarnir að elta þetta sjúka fólk mánuði síðar til að rukka þau inn. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að draga til baka þá yfirlýsingu sína að fátækt fólk verði látið undirrita skuldaviðurkenningu. Ég sé að nokkrir þingmenn Framsfl. hlæja örvæntingarfullir í salnum og kannski trúa þeir ekki enn þá að það sé ætlun ráðherrans að beita þessari aðferð. En það var þetta sem ráðherrann sagði hér áðan.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir á að ræðutíminn er tvær mínútur en ekki tvær og hálf.)