Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:04:17 (1471)

1995-11-29 18:04:17# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[18:04]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er ekkert undarlegt þó að fólki komi á óvart þegar lagt er til að lögum á Íslandi sem kveða á um að sjúklingar sem skráðir eru inn á spítala skuli fá þar ókeypis vist, sé breytt. Það er engin smábreyting að fella slík ákvæði úr lögum. Þess vegna kom fólki það líka á óvart þegar hæstv. heilbrrh. sem lagði slíkt til í fjárlagafrv. kemur í útvarp og lýsir sig andvíga sinni eigin tillögu og skýrir frá því að í ríkisstjórninni hafi önnur tillaga hennar verið kveðin niður, sem sé sú að í staðinn fyrir innritunargjöldin yrði tekinn upp einhvers konar sjúklinganefskattur eða hugsanlega endurvakning sjúkratrygginga. En það get ég ósköp vel skoðað eins og fram hefur komið áður.

En það kastar tólfunum, verð ég að segja, þegar þriðji framsóknarmaðurinn kemur fram og flytur enn nýja tillögu. Sú tillaga er um það að hvorugt þetta skuli gert, hvorki innritunargjald né einhvers konar sjúklingaskattur, sjúkratryggingagjald eða hvað menn vilja kalla það. Þar er lagt til að upp verði tekinn matarskattur á sjúkrahúsunum og fólk verði rukkað fyrir matinn sinn. Þá er eins gott að menn passi upp á það, þegar sjúklingarnir eru bornir út látnir eða lifandi, að matarreikningurinn hafi verið greiddur.

Ég verð nú að segja við þessa hv. þingmenn að um þá á við hið fornkveðna, að tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest. Ég lýsi eftir því hvort ekki ætli fleiri framsóknarþingmenn að koma upp með breytingartillögur. Þarna sé ég að einn er á leiðinni, virðulegi forseti. Það verður gaman hjá okkur stjórnarandstæðingunum þegar við förum að velja á milli. Mér líst einna best á tillögu hæstv. heilbrrh. um að menn skoði að endurvekja gamla sjúkrasamlagskerfið og er reiðubúinn til að athuga það.En að fara að innleiða matarskatt á sjúkrahúsunum líst mér ekki á, enda talar svo úr stóli þingmaður sem ekki hefur mikla þekkingu eða reynslu af þessu máli.

(Forseti (ÓE): Nú sneiðist um tímann sem er til umráða. Það eru þrjár, fjórar mínútur eftir. Það eru enn tveir hv. þingmenn á mælendaskrá auk frummælanda og hæstv. ráðherra. Í trausti þess að þeir allir reyni nú að stytta mál sitt sem mest þeir mega, þá mun ég gefa þeim öllum fjórum orðið.)