Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:10:50 (1474)

1995-11-29 18:10:50# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[18:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sérstaklega fyrir hennar ræðu vegna þess að hún er eini framsóknarmaðurinn sem hefur tekið þátt í þessari umræðu sem kveinkar sér ekki undan henni. Hv. formaður fjárln. kemur hérna og undrast það að ég skuli gera það að umræðuefni að ráðherrann talar einni tungu við ríkisstjórnarborðið, annarri í fjölmiðlum og þeirri þriðju á þingi Framsfl. Hv. þm., í einni bók sem ég er viss um að þingmaðurinn hefur lesið segir:

,,Ræða þín skal vera já, já og nei, nei.`` Þingheimur á heimtingu á því að vita afstöðu ráðherrans til innritunargjalda. Hvers vegna? Vegna þess að þau marka tímamót. Það skiptir máli að ráðherrann hafi skoðun sem þingið veit hver er. Því miður kom þessi skoðun ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra. Hún sagði að hún væri reiðubúin til að ræða það að taka upp nefskatt. Ég er til í að ræða það við hana. Hún hefur hins vegar sagt í fjölmiðlum að hún hafi orðað þetta við ríkisstjórnarborðið og því hafi verið hrundið út af borðinu. Hún hefur sagt í fjölmiðlum að hún sé á móti innritunargjöldum, en hún kemur samt hingað og segir að undir hennar forustu sé verið að vinna tillögur sem miða að því að menn eigi að borga 4--7 þús. kr. til að komast inn á sjúkrahús. Jú, og ef maður er blankur, þá fær maður að borga seinna. Er það næsta sem við sjáum frá heilbrrh. Framsfl. að það verði boðið upp á sjúkrahúsvist með raðgreiðslum hjá Visa eða Euro? Er þetta flokkurinn sem gekk til kosninga og sagði: ,,Það á að hverfa af braut þjónustugjalda``? Ég kveinka mér ekki undan þeirri umræðu. Það er hárrétt að Alþfl. jók þjónustugjöldin. Ég geri greinarmun á þjónustugjöldum eða innritunargjöldum en geri mér grein fyrir að þetta er álitamál. Málið er hins vegar það að Alþfl. gekk til kosninga með þessa stefnu klára. Framsfl. gekk til kosninga og sagði: ,,Við ætlum að lækka þjónustugjöldin. Við ætlum jafnvel að afnema þau.`` En hvað gerir hæstv. heilbrrh.? Hún fylgir stefnu um innritunargjöld sem hún er ósammála. Hún lætur Sjálfstfl. rúlla yfir sig, rúlla yfir það sem ungir framsóknarmenn segja að sé í algerri andstöðu við grundvallarstefnu Framsfl. um samvinnu, samhjálp og félagshyggju. Það er rétt að hæstv. ráðherra svari ungum framsóknarmönnum.