Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:13:23 (1475)

1995-11-29 18:13:23# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[18:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ja, það er ekki lítið þegar stormsveit Alþfl. tekur sig til og talar eins og innritunargjöld séu eitthvað nýtt. Hvaða gjöld lagði síðasti hæstv. heilbrrh. á sjúklinga? Hann lagði á gjöld sem eru allt upp í 20 þús. kr. á einstakling fyrir aðgerð. Tveir sjúklingar geta legið hlið við hlið á sjúkrahúsi. Annar borgar 20 þús. og hinn borgar ekki neitt. Þetta veit hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kannski ekkert um. Mér finnst nefnilega eins og menn tali hér eins og þeir viti ekkert um hvað þeir eru að tala. En það þarf að samræma þetta. (Gripið fram í: Upp á við?) Það þarf að samræma þetta. Það má líka gera niður á við, en þá þarf að afla tekna. En ef menn eru ekki tilbúnir til að afla tekna, verðum við að minnka þjónustuna.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (Gripið fram í.) talaði hér áðan. Hvaða tillögu var hún með? Hún var með tillögu um að leggja niður öll gjöld. Það er út af fyrir sig ágætt, en ekki að leggja á neina skatta, nei, nei. Hún var með tillögu við umræðu um fjárlög um daginn og sagði þar að það væri allt í lagi að auka skatta ríkissjóðs. Hvar endar það? Þetta er mjög ábyrgðarlaus umræða. Og mig langaði að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vegna þess að hann var að tala um að einhver hafi valtað yfir heilbrrh. Hver valtaði yfir hann þegar öll þjónustugjöld Alþfl. voru tekin upp? Enginn. Hann var bara sammála þeim öllum greinilega. (Gripið fram í: Í lánasjóðnum...) Já, það kann að vera að það hafi verið valtað aðeins yfir hann í lánasjóðnum. En hann var greinilega sammála þeim þjónustugjöldum sem voru tekin upp. (Gripið fram í.) Ég segi það að ef nýr skattur verður tekinn upp, þá þarf að samræma gjöldin vegna þess að nú borga ýmsir sjúklingar lyfin sín allt of háu verði. Sjúklingur er kannski að borga 10 þús. kr. fyrir lyfin sín en ef hann leggst inn á sjúkrahús þá greiðir hann ekki neitt. Er eitthvert vit í þessu? Það er ekkert vit í þessu. En það tekur tíma að laga til eftir Alþfl., það tekur tíma.