Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:18:35 (1476)

1995-11-29 18:18:35# 120. lþ. 45.92 fundur 106#B greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi# (aths. um störf þingsins), SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:18]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér verður til umfjöllunar, breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, er afgreiðsla af hálfu Alþingis sem nauðsynleg er til að hægt sé að staðfesta búvörusamninginn sem gerður var á milli stjórnvalda og bænda ekki alls fyrir löngu. Til að það sé hægt þarf að fara fram á Alþingi afgreiðsla fjárlaga þ.e. afgreiðsla greiðsluheimilda. Við höfum ekki enn tekið afstöðu til þessara mála. Lagt er til að gera breytingar á lögunum sem munu hafa áhrif á búvörusamninginn. Mér hafa hins vegar borist fregnir um að nú þegar sé farið að ráðstafa fé úr ríkissjóði án heimilda til að uppfylla samning sem hefur ekki verið staðfestur enda er Alþingi ekki búið að afgreiða þau mál sem það þarf að afgreiða. Mér er tjáð að þegar sé búið að greiða úr ríkissjóði án heimilda 30 millj. kr. vegna söluátaks á lambakjöti í samræmi við ákvæði búvörusamnings sem hefur ekki verið staðfestur og mér er tjáð að Framleiðsluráð landbúnaðarins sé þegar búið að gera samninga um slátrun á 30.000 sauðkindum sem hefur farið fram með fyrirvara um samþykki Alþingis. (Gripið fram í.) Já, slátrun hefur þegar farið fram. Ég óska eftir að fá upplýsingar um þessa fyrirvara og hvað gerist ef Alþingi staðfestir ekki þessar greiðsluheimildir og þann samning sem hér er verið að ræða um staðfestingu á. Um hvað eru þessir fyrirvarar sem mér skilst að Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi sett inn í samninga um förgun 30.000 sauðfjár? Eru þessir fyrirvarar gerðir með samþykki hæstv. landbrh.? Hvað gerist ef reynir á fyrirvarana? Væntanlega sjá menn að ekki verður hægt að blása lífsandalofti í 30.000 ær sem slátrað hefur verið samkvæmt þessum ákvæðum. Hver er þá ábyrgð ríkisins, virðulegi forseti, ef þær aðgerðir ekki ganga fram sem menn hafa rætt um. Hvernig geta menn slátrað 30.000 fjár með fyrirvara?