Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:29:12 (1481)

1995-11-29 18:29:12# 120. lþ. 45.92 fundur 106#B greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi# (aths. um störf þingsins), ÓRG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:29]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að nauðsynlegt er að hæstv. landbrh. og reyndar einnig hæstv. fjmrh. geri þinginu grein fyrir því hver er staða búvörusamningsins áður en umræðan hefst. Ástæðan er m.a. sú að hér liggur á borðum þskj. 254, brtt. frá meiri hluta landbn. í 12 liðum upp á rúmar þrjár blaðsíður þar sem meiri hluti landbn. leggur til breytingar á formlegum samningi sem fjmrh. og landbrh. hafa undirritað. Þar með er ljóst að gagnaðilum þeirrar samningsgerðar er heimilt að gera samninginn marklausan. Stjórnarmeirihlutinn leggur til með afgreiðslunni að samningurinn sé gerður marklaus og það er væntanlega landbrh. og fjmrh. sem hafa gefið heimild fyrir því að meiri hlutinn í landbn. standi þannig að málinu nema landbrh. upplýsi annað.

Svo bætist við að hæstv. landbrh. viðurkennir að það sé með samþykki hans búið að skapa stórfellda skaðabótaskyldu á ríkisvaldið með því að heimila slátrun á 30.000 fjár án þess að fyrir liggi samþykkt Alþingis. Það er fullkomlega óheimilt fyrir ráðherra að stofna til þannig skaðabótaskyldu heimildarlaust af hálfu Alþingis. Satt að segja skil ég ekki hvernig hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. ætla að verja þessa málsmeðferð. Nauðsynlegt er að það komi skýrt fram áður en við í þingsalnum eigum að fara að taka þátt í umræðu um þær breytingartillögur um samninginn sjálfan.