Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 20:52:36 (1492)

1995-11-29 20:52:36# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[20:52]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson flutti langt mál, sumt satt og rétt og ágætt og annað náttúrlega miður eins og gengur. Ort var um fyrsta hagfræðinginn á Íslandi, Arnljót Ólafsson:

  • Mér er um og ó um Ljót
  • ég ætla hann bæði dreng og þrjót
  • í honum er gull og grjót
  • hann getur unnið mein og bót.
  • Hv. þm. Ágúst Einarsson er gull af manni og gott að vinna með honum í landbn. Hann segir samt stundum svolitlar vitleysur og sumt er hart undir tönn. Ekki veit ég hvað hann mundi segja við nemendur sína ef þeir færu að tala um stuðning við landbúnað á sömu nótum og hann gerði hér áðan. Hann var með PSE-mælikvarðann um stuðning við framleiðendur og segir að stuðningur Íslendinga sé 70% meiri en stuðningur OECD. Það má segja það á annan hátt. Hjá OECD er stuðningurinn 43%. Hjá okkur er hann 75%. Munurinn þar á milli er 32% en hv. þm. segir að það séu 70%. Þarna sagði hann aðeins hálfan sannleikann og ég vil taka dæmi:

    Af þeim löndum sem hvað lægstan stuðning hafa við landbúnað eru Nýja-Sjáland með 3% og Ástralía með 10%. Á þessu munar 7%. Hins vegar má líka segja eins og hv. þm. sagði um stuðning Íslendinga og annarra að munurinn milli Nýja-Sjálands og Ástraliu sé 233%, þá sjáum við hversu hægt er að segja stóran sannleika og í vissum tilfellum lítinn með hálfsannleik.