Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 20:58:01 (1495)

1995-11-29 20:58:01# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. 2. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[20:58]

Frsm. 2. minni hluta landbn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta á þskj. 255.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. form. landbn. að starfið í nefndinni var gott og umræða var málefnaleg sem einkenndist af því að nefndarmenn vildu skoða málið af sanngirni og ná fram breytingum sem gætu orðið til bóta á því máli sem við vorum með til umræðu. Sú niðurstaða sem fékkst að lokum varð því ákveðin vonbrigði.

Á fundi nefndarinnar mættu ýmsir aðilar frá hagsmunasamtökum og öðrum aðilum sem málið varðar. Einnig bárust nefndinni skriflegar umsagnir frá nokkrum aðilum eins og fram kemur í nefndaráliti frá meiri hluta nefndarinnar.

Frv. er samið að tilhlutan hæstv. landbrh. í samráði við Bændasamtök Íslands eins og segir í athugasemdum við frv. Með frv. er ætlunin að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99 frá 8. sept. 1993 vegna ákvæða sem eru í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða sem gerður var milli Bændasamtaka Íslands og ríkisstjórnarinnar.

Samningur þessi var undirritaður 1. okt. sl. og hann var gerður vegna þess mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir og felst í tekjuhruni greinarinnar og sívaxandi birgðasöfnun.

Ljóst er að aðlögun sú að breyttum markaðsaðstæðum og starfsskilyrðum sem núgildandi búvörusamningur gerir ráð fyrir hefur að ýmsu leyti reynst erfiðari fyrir sauðfjárræktina en vonir stóðu til. Kemur þar ekki síst til að versnandi atvinnuástand og þrengri atvinnumöguleikar hafa gert bændum erfitt um vik um þátttöku í öðrum atvinnugreinum. Jafnframt hefur neysla dilkakjöts dregist meira saman en þær áætlanir sem lagðar voru til grundvallar búvörusamningnum gerðu ráð fyrir. Allt hefur þetta skapað sauðfjárbændum og byggð í sveitum mikla erfiðleika. Það er því brýnt að grípa til aðgerða og nauðsynlegt að um þær aðgerðir verði víðtæk sátt í þjóðfélaginu.

[21:00]

Öll málsmeðferð ríkisstjórnarinnar er hins vegar gagnrýnisverð. Engin tilraun var gerð til að ná fram víðtækri samstöðu um lausnir á vanda sauðfjárræktar. Ekkert samráð var haft við landbn. Alþingis þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. landbrh. þess efnis á vorþingi. Ekkert samráð var haft við verkalýðshreyfinguna eða aðra aðila vinnumarkaðarins. Það má því segja að lausatök einkenni alla meðferð málsins í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Þessi lausatök eru í raun staðfest í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta landbn. en þar kemur fram að flestar brtt. eru gerðar vegna þess að texti frv. í upprunalegri mynd stenst ekki gagnvart öðrum gildandi lögum.

Þá voru einnig á síðustu stundu gerðar nokkrar efnisbreytingar á frv. Í fyrsta lagi var fellt brott ákvæði um að réttur til beingreiðslna falli niður þegar 70 ára aldri er náð. Í öðru lagi er gerð breyting er varðar ráðstöfun fjármuna samkvæmt 5. gr. samningsins þar sem fjallað er um skiptingu framlaga til hagræðingar og aðlögunar. Brtt. meiri hlutans við frv. heimilar að þá fjármuni sem eiga samkvæmt samningnum að fara til uppkaupa megi taka til annarra nota ef þeir eru ekki allir nýttir til uppkaupanna. Samningurinn gerir hins vegar ráð fyrir að það fjármagn sem ekki fer til uppkaupa skili sér aftur í ríkissjóð. Þarna er því um verulega efnisbreytingu að ræða.

Í þriðja lagi gera breytingartillögur meiri hlutans ráð fyrir að felld verði út úr frv. verðtryggingarheimildin og endurskoðunarheimild samningsaðila um sauðfjárframleiðsluna. Þessar heimildir eru taldar óþarfar þar sem þær eru til staðar í samningnum.

Í fjórða lagi er í samningnum ótvírætt ákvæði þess efnis að fyrir það magn kindakjöts sem er umfram innanlandsmarkað og skal fara til útflutnings verði sameiginlegt uppgjör sláturleyfishafa þannig að sama verð greiðist öllum sauðfjárbændum. Breytingartillögur meiri hlutans kveða hins vegar á um 30 kr. fasta gjaldtöku á hvert kg kjöts til útflutnings og getur hver framleiðandi samið sérstaklega við sláturleyfishafa eða útflutningsaðila um verð. Breytingartillögur meiri hlutans tel ég flestar til bóta.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, mætti á fund nefndarinnar í morgun sem og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, og prófessor Eiríkur Tómasson. Þeir fóru yfir þær breytingartillögur sem höfðu verið gerðar og eru ekki í fullu samræmi við búvörusamninginn. Það skal tekið fram að niðurstaða þeirra þriggja var sú að þarna væri ekki um það miklar efnisbreytingar að ræða að ekki væri hægt að Alþingi gengi frá frv. eins og það er. Með tilliti til þeirrar umræðu sem átti sér stað hér áður en umræðan um frv. hófst þar sem fram kom að nú þegar hefðu átt sér stað einhver ákveðin uppkaup, nefndar allt að 30 þús. ær held ég, og skuldbindingar ríkissjóðs upp á einar 30 millj. kr. sem ættu eftir að hljóta samþykki Alþingis, verð ég að segja að slíkt er vítavert athæfi. Vissulega er óeðlilegt að nú þegar sé farið að vinna eftir samningi sem á eftir að hljóta viðurkenningu á Alþingi. En hins vegar eru þetta víst ekki nema um 8.500 ær sem fóru inn í þessi uppkaup og um þessa 30 millj. kr. skuldbindingu sem hér var gerð að stórmáli má segja að í gildi er búvörusamningur sem fær ákveðin framlög á ári hverju af fjárlögum og ég hef þá trú að hægt sé að mæta þessari skuldbindingu, ef svo færi að Alþingi hafnaði frv., og standa við hana innan ramma núgildandi búvörusamnings og þeirra fjárframlaga sem þar um gilda.

Það er nokkuð skondið þegar búinn er til stormur í vatnsglasi vegna 30 millj. sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum hv. Alþingis þegar við erum á sama tíma að afgreiða fjáraukalagafrv. upp á einhverja milljarða sem hefur verið eytt án heimilda Alþingis.

Það er hins vegar sérstakega gagnrýni vert að ekki var haft samráð við samningsgerðina við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins. Við gerð kjarasamninga í febrúar 1990 náðist víðtæk sátt milli aðila vinnumarkaðarins, bænda og stjórnvalda. Samkomulag varð um skipun svokallaðrar sjö manna nefndar sem í áttu sæti fulltrúar frá landbrn., Stéttarsambandi bænda, ASÍ, BSRB, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandinu. Markmiðið með starfi sjö manna nefndarinnar var að tryggja hagræðingu í landbúnaði sem leitt gæti til lækkandi vöruverðs og um leið tryggari afkomu bænda og þess fólks sem vinnur við framleiðslugreinar tengdar landbúnaði og þjónustu við landbúnaðinn. Mér finnst það raunar allt of oft gleymast í umræðu um landbúnaðarmál og um þessa samningsgerð alla að hér er ekki aðeins verið að fjalla um kjör bændanna sjálfra heldur einnig þess fólks annars sem vinnur við framleiðslugreinar tengdar landbúnaði og þjónustu við landbúnaðinn. Það samstarf sem þarna náðist tryggði að um gerð búvörusamningsins, sem undirritaður var 1991, var víðtæk sátt og við undirbúning nýja samningsins komi sjö manna nefndin ekki að verki með sama hætti og áður var. Í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands frá 11. október um búvörusamninginn og starf að landbúnaðarmálum eru þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar átalin harðlega, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar að sú víðtæka sátt sem náðist á árinu 1990 um stefnumörkun í landbúnaði skuli nú hafa verið rofin af stjórnvöldum og bændum með því að slíta viðræðum við verkalýðshreyfinguna við gerð nýs búvörusamningsins. Búvörusamningurinn var alfarið gerður af stjórnvöldum og samtökum bænda og bera þessir aðilar því einir fulla ábyrgð á framkvæmd hans og afleiðingum. Með þessu hefur þátttöku ASÍ í stefnumörkun í landbúnaði verið hafnað og þannig hefur helstu forsendum verið kippt undan störfum fulltrúa ASÍ í verðlagsnefndum landbúnaðarins. ASÍ verður því óhjákvæmilega að endurmeta ákvarðanir um þátttöku samtakanna í þessum nefndum.``

Í ályktun bandalagsráðstefnu BSRB frá 23. og 24. nóvember sl. segir, með leyfi forseta:

,,Bandalagsráðstefna BSRB, haldin 23. og 24. nóvember 1995, leggur áherslu á að efla íslenskan landbúnað. Til þess að ná því markmiði þarf að halda áfram endurskoðun á skipulagi atvinnuvegarins, sem grunnur var lagður að í samvinnu bænda, launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda í kjölfar kjarasamninga 1990. Ráðstefnan leggur áherslu á að það eru hagsmunir þjóðfélagsins alls, jafnt neytenda sem bænda, að íslenskur landbúnaður sé lagaður að breyttum aðstæðum. Þróun undanfarinna ára sýnir að markaðsöflin leika æ stærra hlutverk í framleiðslu og verslun landbúnaðarafurða og ekkert bendir til annars en að sú þróun muni halda áfram með vaxandi þunga á næstu árum. Ráðstefnan leggur áherslu á að leitað sé leiða til að bændum og vinnslustöðvum í landbúnaði sé gefinn kostur á að laga sig að nýjum háttum. Ráðstefnan telur afar brýnt að tíminn verði nýttur betur í næstu framtíð en áform eru nú uppi um. Þá lýsir ráðstefnan vilja sínum til að endurvekja það samstarf sem fór fram á vettvangi sjö manna nefndar, enda verði byrjað á því að endurskoða nýgerðan samning um sauðfjárframleiðslu með það fyrir augum að leita leiða til að verja þeim opinberu fjármunum sem ætlaðir eru til greinarinnar á markvissari hátt.``

Í athugasemdum við frumvarp ríkisstjórnarinnar kemur fram að sú hagræðing sem stefnt var að í sauðfjárrækt, m.a. með kaupum ríkissjóðs á fullvirðisrétti, hefur ekki gengið eftir og sé orsakanna ekki síst að leita í erfiðu atvinnuástandi sem hafi dregið úr vilja bænda og möguleikum þeirra til að skipta um starf. Því hafi orðið að skerða framleiðslumöguleika allra sauðfjárbænda í verulegum mæli sem síðan hafi ásamt neyslusamdrætti valdið tekjuhruni í greininni.

Vissulega má til sanns vegar færa að erfitt atvinnuástand og samdráttur í sölu dilkakjöts eigi verulegan þátt í því hvernig komið er. En vandann má ekki síður rekja til þess að ekki hefur verið staðið við öll ákvæði þess búvörusamnings sem gerður var árið 1991. T.d. var ekki staðið við ýmis framlög sem efla áttu atvinnuuppbyggingu í sveitum. Má þar nefna viðauka 2, þar sem kveðið er á um að Byggðastofnun skuli fá fjármagn til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Framlög áttu að vera 100 millj. kr. árið 1992, 100 millj. kr. 1993, 50 millj. kr. árin 1994--1997. Um 200 millj. kr. vantar upp á að við þessi fyrirheit hafi verið staðið.

Þá voru í bókun 6 gefin fyrirheit um 2 milljarða kr. framlag til landgræðslu og skógræktar, en í bókuninni segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þeirrar lækkunar á ríkisútgjöldum sem verði til lengri tíma litið, ekki síst vegna afnáms útflutningsbóta, telja samningsaðilar eðlilegt að gera kröfu til þess að varið verði af hálfu ríkissjóðs í tengslum við nýja landgræðsluáætlun stórauknu fjármagni til þessara verkefna á komandi árum, eða um 2 milljörðum kr. út samningstímann. Slík fjárveiting kæmi til viðbótar við aðrar fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar. Störf við þau verkefni gætu að nokkru leyti komið í stað þess samdráttar í atvinnu til sveita sem minni sauðafjárframleiðsla hefur í för með sér, enda verði bændum tryggður forgangur að störfum við landgræðslu, skógrækt og landbætur hvers konar.``

Skemmst er frá því að segja að lítil aukning hefur orðið á fjárveitingum til landgræðslu- og skógræktarstarfa þrátt fyrir þessa bókun. Eina aukningin sem orðið hefur er vegna Héraðsskóga á Fljótsdalshéraði, en það verkefni var ákveðið og lögfest áður en búvörusamningurinn var gerður. Áhugi hefur sjaldan verið meiri en nú á að bæta umgengni við landið, græða örfoka land og efla skógrækt á þeim svæðum sem best eru fallin til ræktunar. Enn er ráðrúm til að standa við þessa bókun ef vilji er fyrir hendi, því hún verður áfram í fullu gildi.

Í nýjum samningi sem hér er að hluta til til umfjöllunar er ákvæði um sérstakar stuðningsgreiðslur til að laga búvöruframleiðsluna breyttum aðstæðum. Þar er gert ráð fyrir að verja 75 millj. til umhverfisverkefna á árunum 1997--2000. Samkvæmt frv. eiga bændur að taka á sig sérstök verkefni á sviði umhverfisverndar, landgræðslu og skógræktar. Þess vegna bendir margt til að þar sem samningurinn kveður á um 75 millj. kr. fast framlag til umhverfisverkefna eigi ekki frekar en áður að standa við bókunina um að verja 2 milljörðum til umhverfisverkefna. Þó liggur fyrir að margir bændur hafa sótt um styrki til að hefja skógrækt á jörðum sínum, ýmist með annarri búgrein eða án.

Þá hefur ekki verið staðið við þau framlög sem lofað var í jarðasjóð. Þar vantar um 130 millj. kr. af þeim 150 sem lofað var. Í bókun sem fylgir samningnum sem nú var gerður segir, með leyfi forseta:

,,Til þess að auðvelda búskaparlok standi bændum til boða að Jarðasjóður kaupi jarðir þeirra seljist þær ekki á frjálsum markaði.``

Engin nánari útfærsla er á þessari bókun og engar reglur um það með hvaða hætti eigi að standa að kaupum og sölu. Ekki er í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 gert ráð fyrir auknu framlagi í Jarðasjóð og engin fyrirheit liggja fyrir um aukin framlög á næstu árum.

Þetta eru nokkur atriði þess búvörusamnings sem nú er í gildi sem ekki hefur verið staðið við af hálfu ríkisvaldsins og stuðla áttu að auknum atvinnumöguleikum bænda og auðvelda þær breytingar og þann samdrátt sem fyrirsjáanlegt var að yrði. Því miður er ekkert sem bendir til að efndir verði betri hvað varðar nýjan samning en var í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi gildandi búvörusamning.

Þá eru mörg efnistriði nýja samningsins og frv. gagnrýni verð og orka tvímælis. Horfið er frá því að halda aðgreindum stuðningi við innanlandsframleiðslu annars vegar og í framleiðslu til útflutnings hins vegar. Þetta getur haft í för með sér að í reynd hefjist á ný niðurgreiðsla búvöru á erlendan markað. Frv. felur ekki í sér sérstaka hvatningu til þess að hefja hér í auknum mæli framleiðslu og sölu á lífrænum eða vistvænum afurðum eða aðra nýsköpun í greininni. Ég verð að segja að mér finnst einkennilegt að ekki skuli vera í raun meiri hvatning til þess að fara út í vistvæna eða lífræna framleiðslu með tilliti til þess að samþykkt var á Alþingi í vor frv. til laga þar sem átti að leggja og á að leggja lífrænni og vistvænni framleiðslu lið með myndarlegu framlagi.

[21:15]

Sl. haust kom á markaðinn fyrsta lífrænt ræktaða lambakjötið og muni ég rétt keypti hæstv. landbrh. fyrsta lærið sem selt var. (Landbrh.: Það var afar gott.) Og það var afar gott, segir hæstv. ráðherra. Frv. gerir bændum sem hafa afsett sína vöru sjálfir að greiða útflutningsskatt af framleiðslunni. Þeim ber að taka þátt í útflutningi til jafns á við aðra þó markaður sé nægur innan lands. Það sama gildir reyndar um bændur sem markaðssetja sitt kjöt sjálfir og hafa ekki þegið beingreiðslur eða á nokkurn hátt verið aðilar að landbúnaðarkerfinu. Mér finnst þetta skref aftur á bak og draga úr hugsanlegri framþróun, vöruþróun og markaðssetningu vörunnar. Ekki er lögð nein sérstök áhersla á vöruþróun og markaðsleit erlendis. Útflutningi er hins vegar beitt sem eins konar refsingu ef framleiðsla er umfram þarfir innanlandsmarkaðar. Um er að ræða útflutning sem landbrh. ákveður og getur haft í för með sér flata skerðingu á verði til allra framleiðenda og gildir þá einu hvort þeir eru innan kerfisins og þiggja beingreiðslurnar eða ekki.

Þá segir í 6. gr. frv.: ,,Hafi framleiðandi fjölgað vetrarfóðruðu fé frá því sem hann hafði veturinn 1994--1995, getur landbrh. ákveðið að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga að sú framleiðsla, sem svarar til fjölgunarinnar, fari öll á erlendan markað. Skal þá miða við sama hlutfall af framleiðslu og fjölgunin nemur.`` Heimild þessi er ótvíræð. Hún er altæk. Ekki er um nein undanþáguákvæði að ræða í frv. En þrátt fyrir þetta er heimild í samningnum til að fjölga sauðfé ef fjölgun er tilkomin vegna breytinga bústofns. Þessi heimild samningsins gildir til 1. júlí 1996. Ég held því að það sé nauðsynlegt að setja undanþáguákvæði inn í lagatextann í samræmi við þá heimild sem er til þessara breytinga í samningnum sjálfum. Þá er gert ráð fyrir því að hætta framleiðslustýringu innan lands, sem getur haft í för með sér að samningurinn verði framleiðsluhvetjandi og leiði til framleiðslusprengingar og óeðlilegrar lækkunar á verði afurða. Samningurinn og frv. ríkisstjórnarinnar eru einkennileg blanda af ofstjórn og frjálshyggju.

Í 12. og 13. gr. frv. er fjallað um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og endurúthlutun greiðslumarks. Stefnt er að því að auka við greiðslumark lögbýla hjá þeim aðilum sem byggja lífsafkomu sína að miklu leyti á sauðfjárrækt. Í samningnum sjálfum eru ákvæði um þessa úthlutun. Þar kemur fram að þeir sauðfjárbændur, sem hafa 180--450 ærgilda greiðslumark í sauðfé, eigi möguleika á allt að 10% aukningu á beinum greiðslum. Sá sem hefur innan við 180 ærgilda greiðslumark á þó möguleika á aukningu geti hann sýnt fram á það að afkoma hans byggist að stærstum hluta á sauðfjárframleiðslu. Það verður að teljast hæpið, að teknu tilliti til þess hverjar eru tekjur bónda með 180 ærgilda greiðslumark eða minna, að hægt sé að sýna fram á að afkoma fjölskyldu byggist aðallega á sauðfjárrækt. Hugsanlega gætu einstaklingar eða þessir títtnefndu piparsveinar í landbúnaði, sjötugir og yngri, framfleytt sér af þessum greiðslum. (KÁ: Hvar eru þeir?) Já, hvar eru þeir. Er það nema von að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spyrji þeirrar spurningar þar sem verulegur skortur er á myndarlegum karlmönnum á lausu á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) En hins vegar hafa þessir karlmenn möguleika á því að framfleyta sér einum með þeim greiðslum sem þeir fá hugsanlega fyrir 180 ærgilda greiðslumark. En hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir ætti að hugsa um framfærslumöguleikana ef greiðslurnar ættu að standa undir framfærslu fjölskyldu.

En það er ekki tekið tillit til þess hvert greiðslumark þessara aðila var áður en þeir voru skertir vegna ákvæða í gildandi búvörusamningi. Þá er ekki fyrirhugað að taka sérstaklega tillit til þess hvort umsækjandi býr á svæði þar sem landkostir henta vel eða illa til sauðfjárræktar. Samningurinn tekur á engan hátt á nauðsyn þess að svæðaskipting eigi sér stað í landbúnaði þar sem tekið er mið af landgæðum, staðháttum og möguleikum til annarrar atvinnustarfsemi. Þannig er samningurinn engin stoð þeim byggðarlögum sem byggja aðallega á sauðfjárbúskap og tekur ekki sérstaklega á vanda þeirra sem verst hafa farið út úr þeirri skerðingu sem nú þegar hefur átt sér stað.

Í umsögn um frv. ríkisstjórnarinnar sem landbn. fékk frá BHMR segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,BHMR lýsir sérstökum áhyggjum vegna lélegs rekstrargrundvallar smábýlanna, miklum skuldum þeirra og lágum tekjum sem jaðra við fátæktarmörk. Á þessum vanda er ekki tekið í frv. Afleiðing þessa ástands birtist m.a. í þeirri staðreynd að margir smábændur eiga orðið erfitt með að standa undir skólagöngu barna sinna.``

Jafnframt lýsir BHMR því yfir að fyrirliggjandi búvörusamningur sé ekki trúverðug lausn á þeim vanda sem við blasir í sauðfjárræktinni og hvetur til þess að samningurinn verði endurskoðaður og reynt verði að finna varanlegri lausn á aðlögun bænda að breyttum alþjóðlegum aðstæðum þar sem stefnt er að lægra vöruverði til hagsbóta fyrir neytendur.

Það vekur athygli að í viðræðum nefndarinnar við þá sem komu á fund hennar og einnig í þeim umsögnum sem nefndinni bárust kemur nær undantekningarlaust fram veruleg gagnrýni á samninginn og frv. og einnig efasemdir um að þau markmið sem sett eru fram náist. Enginn treysti sér til að fullyrða að frv. í núverandi mynd stæðist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, sérstaklega hvað varðar ákvæðin þar sem kveðið er á um skyldur sauðfjárbænda til að flytja út afurðir án þess að nokkrar markaðsforsendur séu fyrir þeim viðskiptum.

En það vakti einnig athygli að bankastjórn Seðlabanka Íslands neitaði að veita umsögn um frv. á þeim forsendum að efni þess félli utan verksviðs Seðlabankans. Nefndin vænti umsagnar Seðlabankans um þjóðhagsleg áhrif samningsins, hugsanlegar útflutningstekjur, markaðshorfur innan lands og utan, áhrif á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og fleiri atriði sem við vildum að bankastjórn Seðlabankans fjallaði um. Bankastjórnin neitaði að veita þessa umsögn af framangreindum ástæðum, þar sem þetta félli utan verksviðs bankans. Þetta hlýtur að teljast ámælisverð afstaða af hálfu stjórnar opinberrar stofnunar og lítilsvirðing við störf löggjafans.

Eins og segir í upphafi nefndarálits 2. minni hluta er nauðsyn á úrbótum í málefnum sauðfjárbænda. 2. minni hluti leggur áherslu á að grípa þarf til sérstakra aðgerða og ítrekar þá afstöðu að um þessar ráðstafanir þarf að vera víðtæk samstaða bænda, verkalýðshreyfingar og annarra aðila vinnumarkaðarins, sem og ríkisvalds. Slík samstaða er ekki fyrir hendi hvað varðar þann samning sem gerður hefur verið eða það frv. sem til umfjöllunar hefur verið í landbn., enda ber niðurstaðan þess merki. Ég dreg í efa að samningurinn og frv. leysi þann vanda sem við er að etja í sauðfjárrækt eða sé til hagsbóta fyrir neytendur. Frv. felur einfaldlega ekki í sér neina framtíðarsýn. Það er ekki hægt að sjá hvað tekur við þegar að samningsferlinu lýkur. Þá á sjálfsagt að ríkja það frelsi sem boðað var í upphafi samningsgerðar og samningurinn á að hluta til að fela í sér, en við höfum ekki komið auga á. En til þess að greinin geti staðið á eigin fótum eftir að samningstíma lýkur þurfa verulegar breytingar innan greinarinnar að eiga sér stað og ekki aðeins innan hennar. Viðhorfsbreytingar þurfa að eiga sér stað gagnvart henni, ekki bara meðal almennings og neytenda, heldur meðal bænda sjálfra. Það er dálítið dapurlegt að upplifa það í nefndarstarfi að hafa á tilfinningunni að stéttin sjálf hafi í raun ekki trú á rekstrargrundvelli greinarinnar. Þá er fokið í flest skjól.

Það þarf að semja að nýju. Það þarf að gera á meðan þessi samningur gildir og sem allra fyrst. Þá samninga á að gera í samvinnu við þá aðila sem ég hef getið um í ræðu minni. Meðan á því stæði er sjálfsagt að veita þær lagaheimildir sem til þarf.

Þingflokkur Alþb. lagði fram tillögu til þingsályktunar á 118. löggjafarþingi um aðgerðir í landbúnaðarmálum og úttekt á starfsskilyrðum og samkeppnisstöðu landbúnaðarins. Tillagan var flutt í ljósi skýrslu sem þáv. landbrh. gaf um framkvæmd búvörusamningsins þar sem fram kom m.a. að verulega vantaði upp á að staðið hefði verið við öll ákvæði gildandi búvörusamnings eins og ég hef áður getið um. Tillagan fól m.a. í sér að landbrh. í samráði við nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka gripi til eftirfarandi ráðstafana í málefnum landbúnaðarins:

Gera áætlun um hvernig staðið verði að málefnum landbúnaðarins og eflingu byggðar í sveitum það sem eftir lifir gildistíma núgildandi búvörusamnings. Markmiðið verði að tryggja að við lok gildistíma samningsins hafi að fullu verið staðið við ákvæði viðauka og bókana sem honum fylgja.

Í öðru lagi að gera tillögur um sérstakan stuðning við hefðbundnar búgreinar, einkum sauðfjárrækt vegna erfiðleika í aðlögun að markaðsaðstæðum. Ráðstafa yrði a.m.k. hliðstæðum fjármunum í þessu skyni og ríkið hefur sparað og mundi spara sökum minni sölu innan lands en forsendur búvörusamningsins gerðu ráð fyrir. Yrði þessum fjármunum varið til að bæta stöðu bænda sem fyrir mestum tekjusamdrætti hefðu orðið til þess að kosta átak í útflutningi á hágæðavörum á þá markaði sem best borga og til fleiri nýsköpunarverkefna.

Í þriðja lagi þá verði hlutast til um ítarlega úttekt á starfsskilyrðum og samkeppnisstöðu landbúnaðarins í ljósi breyttra aðstæðna, m.a. alþjóðasamninga sem Íslendingar hafa gerst aðilar að síðan búvörusamningurinn var gerður. Á grundvelli þeirrar úttektar yrðu síðan gerðar tillögur um jöfnun samkeppnisskilyrða.

Í fjórða lagi lögðum við til að undirbúningur yrði hafinn á mótun landbúnaðarstefnu til næstu ára, sbr. 10. gr. í gildandi búvörusamningi og viðræður yrðu strax teknar upp við bændasamtökin um þau mál.

Tillaga þessi er í raun í fullu gildi. Ef hún hefði verið afgreidd frá Alþingi á sínum tíma og þessi vinna farið í gang væri aðstaða til samningagerðar við bændur allt önnur en hún er nú. Auk þessara atriða er hægt að nefna nokkur önnur úr tillögunni sem nauðsynlegt er að taka á með öðrum hætti en gert er í samningnum og frv. Þar á meðal að Jarðasjóði verði tryggt fjármagn svo hann geti keypt jarðir og auðveldað þannig þeim búskaparlok sem vilja hætta búskap. Að ekki sé bara um yfirlýsingar að ræða heldur aukin framlög í Jarðasjóð. Að mótaðar verði fastar reglur um það hvernig að kaupunum yrði staðið af hálfu ríkisins. Að bændur sem greiða tryggingagjald fái að njóta eðlilegra greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Að tekið verði með öflugum hætti á vöruþróun og markaðssetningu. Að hvatt verði til lífrænnar og/eða vistvænnar framleiðslu í landbúnaði og annarrar nýsköpunar með skýrum hætti og að þegar uppkaup á framleiðslurétti eiga sér stað verði tryggt að sauðfjárbúskapur verði ekki stundaður á viðkomandi jörð. Þó verði þar tekið tillit til landkosta og ákveðinnar svæðaskiptingar. Við endurúthlutun á framleiðslurétti verði tekið tillit til svæðaskiptingar með tilliti til landgæða, staðhátta og atvinnuástands. Aðrar tillögur til úrbóta mætti vafalaust nefna, en ég læt nægja að ítreka nauðsyn þess að um úrbætur í málefnum þessarar mikilvægu atvinnugreinar sé víðtæk sátt.

[21:30]

Það er ljóst af því sem ég hef sagt að 2. minni hluti stendur ekki að tillögum eða áliti meiri hlutans. Ljóst er eftir yfirferð nefndarinnar og af þeim umsögnum, munnlegum og skriflegum sem fyrir nefndina hafa komið að nauðsyn er á ákveðnum breytingum á samningnum og frv. ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja að þau markmið sem sett eru náist. Því tek ég undir þau sjónarmið 1. minni hluta þar sem fram kemur nauðsyn þess að semja að nýju við Bændasamtökin og er 2. minni hluti tilbúinn til vinnu við slíka samningsgerð ef óskað er. Þá ítreka ég þau sjónarmið að nauðsynlegt er að taka aftur upp samvinnu fulltrúa þeirra aðila sem komu að gerð gildandi búvörusamnings, ekki síst verkalýðshreyfingarinnar.

Jafnframt vill 2. minni hluti stuðla að því að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar svo svigrúm skapist til að vinna að nýjum samningi. Ég styð því tillögu 1. minni hluta þess efnis að frv. þessu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og þar verði tekið á málum með tilliti til þeirra atriða sem ég hef hér upptalið.

Að lokum vil ég geta þess, virðulegi forseti, að með nefndarálitinu er fylgiskjal sem sett er upp af framkvæmdastjóra Bændasamtakanna þar sem er dæmi um gjaldtöku af kindakjötsframleiðslu. Af skattlagningu, bæði þeirri sem er í dag sem og þeirri sem gert er ráð fyrir samkvæmt samningnum að komi til verði frv./samningurinn samþykktur af hálfu Alþingis. Eflaust vantar eitthvað þarna inn í en þetta gæti samt verið fróðlegt fyrir hv. þingmenn að sjá hvernig verðið skiptist og hversu há skattlagning er í raun á þessari grein fyrir utan það hvað slátur- og heildsölukostnaður er mikill.