Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 22:04:38 (1499)

1995-11-29 22:04:38# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[22:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er þekktur fyrir að hafa gjarna uppi stór orð og miklar yfirlýsingar um það hversu allir aðrir en hann séu óhagstæðir bændum. Sérstaklega á þetta við þegar hv. þm. er í sínu heimahéraði, austur á Hornafirði. Þar mun hann m.a. hafa haft þau orð um gamla búvörusamninginn í framboðsræðum á vordögum eða síðvetrardögum 1991, að fyrr skyldi blóð renna um sali en hann samþykkti þann samning eða stæði að því að hann yrði framkvæmdur. En úr því hann var svona slæmur, versti samningur síðan Gamli sáttmáli var gerður, hvernig stendur þá á því að hv. þm. studdi í fjögur ár ríkisstjórn sem stóð að framkvæmd þess samnings óbreyttum? Og meira að segja var landbrh. hæstv. úr flokki hv. þm. Eitt af fyrstu verkum þess landbrh., landbrh. Sjálfstfl., var einmitt að leggja til lögfestingu þess samnings á Alþingi haustið 1991.

Í annað skiptið á skömmum tíma hefur hv. þm. nú uppi stór orð um það hve búvörusamningar séu vondir. Hvað verður svo úr öllu saman þegar til þings er komið? Hv. þm. styður aftur fyrirvaralaust það sem hann er áður búinn að vísa út í ystu myrkur. Ég stóð m.a. upp til að minna aðeins á þetta eftir þá háfleygu ræðu sem flutt var hér áðan.

Það er misskilningur og ber nú ekki vott um mikla þekkingu fyrrv. formanns landbn. og núv. varaformanns, að halda því fram að í gamla búvörusamningnum, eða þeim sem síðast hefur verið í gildi, hafi staðið bannákvæði um að menn mættu flytja út lambakjöt eða kindakjöt. Það er bókstaflega ekkert um það fjallað með þeim hætti. Hins vegar er ljóst að í þeim samningi var sá útflutningur á ábyrgð bænda og það var ekki gert ráð fyrir því að opinberir fjármunir rynnu til þess að niðurgreiða kindakjöt í útlendinga. Það er hins vegar opnað fyrir þann möguleika í nýja samningnum. Hv. þm. er kannski að verða svona sáttur við hann af því að nú á á nýjan leik að taka upp þá gömlu viðreisnartilhögun að ráðstafa íslenskum skattpeningum í að niðurgreiða þessa vöru ofan í útlendinga í staðinn fyrir að verja þeim peningum til að lækka verð vörunnar á innlendum markaði.