Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:45:20 (1510)

1995-11-29 23:45:20# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:45]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að þakka hv. þingmönnum Alþfl. hlý orð í minn garð. En ég verð hins vegar útskýra þetta aðeins betur fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Að vísu gleðst ég yfir því ef ég hef getað komið honum á óvart. Hann er með þingreyndari mönnum hér, það er þó eitthvað sem hann hefur ekki enn þá heyrt. Hann nefndi fyrirvara minn. Ég túlka það þannig að þar sé um almennan fyrirvara við málið að ræða. Hins vegar vonast ég til að þegar kemur að því að við þurfum að leita til kjósenda okkar aftur þá hafi sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr setið út sitt kjörtímabil. Þá verða ákvæðin um frjálsa verðmyndun komin fram og vonandi farin að hafa einhver áhrif. Og þá verða þeir jákvæðu þættir farnir að virka sem ég tel vera í þessum samningi og ég mun þá væntanlega geta farið með þá á fund minna kjósenda.