Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:51:16 (1514)

1995-11-29 23:51:16# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:51]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Að miklu leyti er hin latínuskotna greining hv. þm. Marðar Árnasonar rétt. En rétt er að geta þess að í ræðu minni nefndi ég nokkur atriði sem ég teldi að væru jákvæð í samningnum. Þingmaðurinn spyr hvers vegna ríkisstjórnin sé svona merkileg. Þetta er að mínu mati einfaldlega sú eina starfhæfa ríkisstjórn sem hægt var að mynda að loknum kosningunum. Sú eina starfhæfa ríkisstjórn sem ég treysti til þess að takast á við þau vandamál sem við horfumst í augu við í þjóðfélaginu og breyta þeim þáttum sem þarf að breyta til betri vegar. Ég hef reyndar ekki leynt því að ég hefði gjarnan kosið að kosninganiðurstaðan hefði leitt til annarrar ályktunar en ég hef nú dregið en því var ekki til að dreifa og maður verður að horfast í augu við raunveruleikann.

Hv. þm. Mörður Árnason hefur ekki lengi setið á hinu háa Alþingi en hann á væntanlega eftir að gera það, kannski oft og kannski lengi. (Gripið fram í: Fyrir hvaða flokk?) Fyrir hvaða flokk? Ég er ekki maður til að spá um það. En þá mun hann vafalaust komast að því að bæði innan flokka þurfa menn að gera málamiðlanir og á milli flokka, sem starfa saman í ríkisstjórn, þurfa menn að gera málamiðlanir og eins þegar tveir aðilar semja sín á milli eins og ríkisvaldið gerir gagnvart bændum mun hvorugur aðilinn fá allt sitt fram.