Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:55:23 (1517)

1995-11-29 23:55:23# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir vinnu hennar við það frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Enda þótt það komi fram bæði í nefndarálitum og í ræðum manna hér á undan að ekki séu allir sammála um málið eða málsferðina held ég að út af fyrir sig blandist engum hugur um það við að lesa yfir nefndarálitin og hlýða á umræðuna að vinnan í nefndinni hefur verið málefnaleg. Menn hafa lagt þar mikið á sig við að fara yfir frv. og gera á því ýmsar breytingar sem nefndin taldi nauðsynlegar og ég ætla aðeins að gera hér að umræðuefni á eftir. Ég veit að hv. nefndarmenn hafa lagt sig fram um að málsmeðferðin væri vönduð og hv. form. nefndarinnar á þakkir skildar fyrir það hvernig hann hefur staðið að málsmeðferðinni allri.

Í umræðunum hér á undan hefur mikið verið talað um að það hafi þurft að gera miklar breytingar á frv. vegna þess hvernig það hafi komið frá ráðherra og frá ráðuneyti hans og að vart sé viðunandi hvernig það var búið í hendur þingmanna. Menn hafa talað um að þetta séu að verulegu leyti svokölluð lagatæknileg atriði. Ég held reyndar að það sé rétt að mikið af því sem hér er verið að gera tillögur um séu breytingar á frv. sem gera það skýrara, nákvæmara í efnistöku og kveða á um það hver beri hina raunverulegu ábyrgð og hvernig skuli staðið að því að ákveða þá þætti sem breytingartillögurnar kveða á um hvernig skuli vera. En í frv. var meira um það að ráðherra væri heimilt og jafnvel að framsal væri á valdi sem varðar gjaldtöku eða skattlagningu og samrýmist ekki lengur góðum stjórnskipunarákvæðum.

Ég leyfi mér að halda því fram að það sem hefur verið til umfjöllunar og hefur gerst við meðferð málsins í nefndinni sé ef til vill vegna þess að þetta er eitt fyrsta frumvarpið sem þingnefnd hefur veitt svo nákvæma og vandaða yfirferð. Ég er þó ekki að gera lítið úr því sem aðrar þingnefndir hafa gert við önnur frv. sem hafa tekið breytingum í þinginu. En hér er verið að laga sig að nýjum vinnubrögðum sem er nauðsynlegt að ráðuneytin taki upp og engin afsökun fyrir því að ráðuneytin skuli ekki þegar hafa gert það og þar með talið landbrn. Af hálfu þingsins hafa verið fengnir utanaðkomandi lögfræðingar og að minnsta kosti annar lögfræðingurinn hefur sinnt landbúnaðarmálum allmikið á undanförnum árum og þekkir þess vegna vel til þeirrar löggjafar. Hinn lögfræðingurinn er prófessor í lögum sem vill einnig að löggjöfin sé vönduð eins og hún kemur frá löggjafanum sjálfum, hv. Alþingi, og taki mið að því sem Alþingi sjálft hefur sett inn í stjórnarskipunarlög. Þess vegna hefur það komið meira í ljós nú en við ýmis önnur lagafrv. sem hafa verið til meðferðar og vafalaust á það einnig við um ýmis lagaákvæði sem eru í gildi, og auðvitað sannast á því sem kemur fram í breytingartillögunum að verið er að gera breytingar við ákvæði búvörulaganna sem eru þó algjörlega óháð eða óviðkomandi hinum nýja búvörusamningi og sannar í raun það sem ég er að segja og er ekki ástæða til annars en að lýsa ánægju sinni með það. Ég er að sjálfsögðu samþykkur þeim lagfæringum sem frv. fær með þeim breytingartillögum sem eru lagðar til af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Ég veit að önnur ráðuneyti þurfa að taka þá málsmeðferð sem hér hefur verið bryddað upp á sér til fyrirmyndar.

[24:00]

Breytingarnar sem eru efnislegar og varða ákvæði samningsins held ég að séu smávægilegar. Ég leyfi mér að fullyrða að þær stofni samningnum sem slíkum ekki í nokkra hættu. Þær eru ekki þess eðlis að samningsákvæðum verði riftað, hvorki af hálfu Bændasamtaka Íslands né ríkisstjórnarinnar, enda samráð haft við ráðherra um málið þegar það var til umfjöllunar í þingnefndinni. Ég átti viðræður við formann nefndarinnar og aðra nefndarmenn og fjmrh., sem er einnig aðili að þessum samningi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Ágúst Einarsson gerði það að umræðuefni í máli sínu áðan að ráðherra landbúnaðarmála hafi verið með yfirlýsingar í fjölmiðlum nýlega þar sem hann hafi m.a. sagt eitthvað á þá leið að það yrði ekki stafkrók breytt í samningnum. Ég held reyndar að þetta sé ekki orðrétt haft eftir mér, þótt ég telji að ég hafi skrifað þetta orðrétt eftir hv. þm. En ég lýsti því yfir í fjölmiðlum að ég teldi að það væri mikilvægt að þessum samningi yrði ekki breytt og hann yrði meðhöndlaður eins og ýmsir aðrir samningar sem ríkisstjórnir hafa oft og tíðum gert, m.a. við aðila vinnumarkaðarins, þegar gengið hefur verið til kjarasamninga og ríkisvaldið hefur tekið að sér að beita sér fyrir ákveðnum lagabreytingum til þess að fullnægja ákvæðum kjarasamninga. Þá hefur það að sjálfsögðu verið gert með fyrirvara um samþykki Alþingis, en alla jafnan verið treyst á það að ríkisstjórn hefði vald á málinu og hefði þann meiri hluta á þingi að hún gæti tryggt slíkt. Og ég fullyrði líka að svo er nú. Ég fullyrði að það er engin hætta á því að þær smávægilegu breytingar sem gerðar eru á samningnum valdi einhverju um það að samningurinn haldi ekki fullu gildi sínu.

Það kemur ekki ævinlega allt fram í frétt sem þó er sagt við fjölmiðlamenn, þeim er knappur tími skorinn í fréttatíma sínum og stytta gjarnan viðtöl. En ég lét það a.m.k. koma skýrt fram í máli mínu við þá ágætu fjölmiðlamenn að auðvitað væri valdið í höndum Alþingis. Það er engin spurning um það. Það er Alþingi sem hefur síðasta orðið í þessu efni. Ég gat einungis vonast til þess og ætlast til þess að meiri hluti Alþingis stæði að þeim samningi sem ríkisstjórnin hefur gert. Þetta vil ég að sé alveg skýrt af minni hálfu, hæstv. forseti, þótt hér sé e.t.v. ekki farið orðrétt með það sem okkur fréttamanni fór á milli. Ég get ekki fullyrt það nákvæmlega þar sem ég hafði ekki tækifæri til að sjá eða lesa fréttina í endanlegri gerð.

Ef við ræðum aðeins um þau efnisatriði sem breytast í meðferð nefndarinnar á samningnum, var alltaf vitað mál að það voru mjög skiptar skoðanir um það ákvæði sem varðaði 70 ára einstaklinga sem áttu að missa beingreiðslurnar. Báðir þingflokkar tóku því með fyrirvara og gerðu við það athugasemdir og þetta var líka eitt af þeim efnisatriðum sem sættu mikilli gagnrýni á kynningarfundum um samninginn meðal bænda og úti í þjóðfélaginu. Niðurstaðan varð að gera á þessu breytingar sem ég sætti mig við athugasemdalaust og dreg þá ályktun af nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að full ástæða sé til að búast við hinu sama af hinum samningsaðilanum, þ.e Bændasamtökunum.

Við vitum líka að birgðastaðan er erfið. Við höfum í þessum samningi gert ráð fyrir því að leita sérstakra aðgerða nú þegar á þessu hausti til þess að reyna að létta á birgðastöðunni og má búast við því að það sama gildi næsta haust. Nefndin hefur því einnig gert breytingartillögur sem ég tel mikilvægar til þess að aðstoða við og auðvelda afsetningu birgða, án þess að fjárhagsrammi samningsins sé rofinn. Það er ekki farið út fyrir hann. Hér er í raun ekki verið að lofa neinum viðbótarfjármunum heldur er gert ráð fyrir því að heimilt sé að verja þeim með nokkuð öðrum hætti en samningurinn gerði ráð fyrir í upphafi, enda líka gert ráð fyrir því að bændur og afurðastöðvar leggi til þess máls fjármuni með viðbótarverðskerðingargjöldum.

Það má líka segja, og það er svo sem er ekkert nýtt í umræðunni, að samningurinn sem slíkur er auðvitað enginn óskasamningur. Ég skil því vel fyrirvara og athugasemdir sem fram hafa komið, bæði hjá þingmönnum og í þingnefndinni. Sú birgðastaða sem við horfum á núna og reiknum með að þurfa einnig að takast á við á næsta ári er auðvitað að hluta til ástæða þess að það er ekki farið hraðar í breytingar. Menn hafa verið að vonast til að samningurinn leiddi til aukins frjálsræðis í verðlagningu og framleiðslu og meiri breytinga á stjórnun í þessum viðkvæma en mikilvæga atvinnuvegi en gert ráð fyrir í þessum búvörusamningi og þessum lögum. Það höfum við rætt áður og ég tel að þrátt fyrir að ekki sé farið hraðar, þá séu stigin hér mikilvæg skref og lagðar til mikilvægar breytingar sem muni hafa umtalsverð áhrif á þróun í landbúnaði og þá einkum í sauðfjárræktinni á næstu árum.

Mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni tvö atriði sem tekin eru út úr frv. Bæði styðjast við ákvæði í samningnum en meiri hluti nefndarinnar telur þó óþarft eða jafnvel óeðlilegt í brtt. sínum og nál. að tilgreina þau sérstaklega í lögunum. Það fyrra er ákvæði 9. gr. frv. að beingreiðslumark sauðfjárafurða skuli taka breytingum með vísitölu neysluverðs. Þetta ákvæði er fellt út úr frv. samkvæmt tillögu meiri hluta landbn. og sama er að segja um ákvæði í 11. gr. þar sem einnig er fjallað um verðtryggingarákvæði beingreiðslna á hvert ærgildi. Þessar breytingar á frv. upphefja að sjálfsögðu ekki ákvæði samningsins um greiðslutilhögun þar sem kveðið er á um það sérstaklega í samningnum sjálfum og segir svo, með leyfi forseta, í lið 6.3:

,,Allar fjárhæðir í samningi þessum skulu miðaðar við verðlag 1. október 1995 og taka breytingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Þetta er einnig skýrt fram tekið í nefndaráliti meiri hlutans þar sem einmitt er kveðið á um þessa breytingu sem gerð er á frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er talin ástæða til að hafa í lögunum ákvæði um verðtryggingu einstakra atriða samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, svo sem á upphæð beingreiðslna, þar sem skýr ákvæði er að finna í samningnum um að allar fjárhæðir skuli miðaðar við 1. október 1995 og að þær taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og segir orðrétt í kafla 6.3 í samningnum um greiðslutilhögun. Ljóst er að stjórnvöld eru bundin af því ákvæði þó að ekki sé að finna ákvæði um verðtryggingu í lögum.``

Reyndar er ekki kveðið á um allar upphæðir eða alla efnisþætti samningsins í lagafrv. heldur var, ef ég man rétt, fjallað um verðtryggingu ákveðinna hluta samningsins í lagagreinunum tveimur. En í samningnum sjálfum eru skýr ákvæði um allar fjárhæðir.

Í sjálfu sér þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum. Samningsákvæðin eru skýr en vissulega er ákvörðun tekin um þetta við fjárlagagerðina hverju sinni. Fjárlagagerðin kveður á um það hvernig farið er með þennan þátt og hvernig staðið er að framreikningi eða ákvörðun þeirra upphæða sem búvörusamningurinn gerir ráð fyrir að lagðar séu til sauðfjárræktarinnar ár hvert. Í framhaldi af því kem ég að hinni breytingu frv. sem ég nefndi, og einnig er við 9. gr. Viðhorf mitt til hennar svarar kannski að einhverju leyti spurningu sem hv. þm. Árni Mathiesen beindi til mín í lok ræðu sinnar áðan um ákvæði 2.1 í samningnum. Þetta ákvæði í frv. sem hér er fellt niður hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Aðilar að samningi um framleiðslu sauðfjárafurða geta hvor um sig óskað eftir endurskoðun á beingreiðslumarki sauðfjárafurða annað hvert ár verði breytingar á markaði kindakjöts.``

Það er sem sagt lagt til að þessi málsgrein verði felld út úr frv. en í samningnum er hins vegar efnislega samhljóða grein, 2.1, sem hv. þm. vitnaði til. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvor aðili fyrir sig getur óskað eftir endurskoðun á beingreiðslumarki annað hvert ár verði breytingar á markaði kindakjöts.``

Ég lít að sjálfsögðu þetta ákvæði samningsins sömu augum og verðtryggingarákvæðið, það heldur fyllilega sem slíkt fullu gildi svo lengi sem samningsákvæðunum að þessu leyti er ekki breytt. Mér finnst eðlilegt að þetta ákvæði sé virt þannig að verði verulegar eða umtalsverðar breytingar á markaði kindakjöts, þá sé rétt að stjórnvöld óski eftir endurskoðun á ákvæðum samningsins. Það sama á að sjálfsögðu við um hinn samningsaðilann, þ.e. Bændasamtök Íslands, ef þau telja ástæðu til að óska eftir endurskoðun vegna breytinga sem kunna að verða á markaði kindakjöts. Enda er hér talað um báða samningsaðila.

Við slíka endurskoðun tel ég líka nauðsynlegt að fjalla einnig um markmið samningsins og að hugsanlegar breytingar við samninginn taki þá mið af því hvernig tekist hefur að tryggja þau að öðru leyti eins og þau eru sett fram í upphafi samningsins. Ég tel að einstök atriði samningsins, t.d. þau sem varða hagræðingu, vöruþróun o.fl. séu hugsuð þannig að menn leggi áherslu á að viðhalda eftir bestu getu innanlandsmarkaði kindakjötsins. Vegna verðlags á útflutningi er það auðvitað mikilvægasti markaðurinn. Því er mikilvægt að halda innanlandsmarkaðnum þótt hluti af þeim vanda sem við glímum við með endurskoðuninni sé auðvitað neyslubreytingar. Ekki bara vegna verðlags eða vegna þess að lambakjötið okkar ágæta líki ekki, heldur eru neyslubreytingar svo miklar í þjóðfélaginu og þá kannski einkum hjá ungu fólki. Það bitnar ekki bara á kindakjöti heldur á kjötneyslu almennt.

Ég vil einnig minna á að í lok samningsins er fjallað um endurskoðun hans, þ.e. almenn endurskoðunarákvæði sem er að finna undir tölulið 6.4 um endurskoðun á samningnum, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðilar samnings þessa geta hvor um sig óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstökum atriðum hans. Að þremur árum liðnum skulu samningsaðilar gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Í framhaldi af því skal hefja undirbúning viðræðna um áframhaldandi stefnumörkun á þessu sviði.``

[24:15]

Ýmsir hv. ræðumenn hafa velt því fyrir sér til hvers þessi samningur muni leiða og hver framtíð hans muni verða, bæði á samningstímanum og eins að honum liðnum. Ég fékk einnig spurningu frá hv. seinasta ræðumanni, hv. þm. Árna Mathiesen, um framtíðarsýn ráðherrans hvað þetta varðaði. Fleiri aðilar, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Ágúst Einarsson veltu auðvitað líka mikið fyrr sér í sínum ræðum hvert stefndi.

En í þessu ákvæði, ef ég tala aðeins meira um það, er aftur fjallað um endurskoðunarákvæði sem sjálfsagt er að virða og hefja ekki síðar en að þremur árum liðnum á ný undirbúning að viðræðum um áframhaldandi stefnumörkun. Eins og ég sagði áðan, er ég ekki í nokkrum vafa um að samningurinn mun valda miklum breytingum og þróa íslenskan landbúnað í rétta átt og er reyndar fullviss um það. En ég er ekki þeirrar skoðunar að þar með sé öllum afskiptum af íslenskum landbúnaði lokið. Ég er þess fullviss að áfram þarf að fjalla um þróun íslensks landbúnaðar, opinberan stuðning við hann og stefnumörkun fyrir næstu árin þar á eftir. Ég tel rétt að fleiri hagsmunaaðilar komi að þeirri stefnumörkun en þeir einir sem eiga beina aðild að samningnum. Þó er ljóst að enginn verður dreginn að slíku samningaborði ef hann eða viðkomandi aðilar sem hugsanlega yrði boðin slík aðild vilja ekki taka þátt í því og að ekki verða aðrir samningsaðilar að slíkum viðræðum eða samningi en þeir sem beina aðild eiga að honum, þ.e. ríkisvald og bændasamtök geta sætt sig við. Þannig tel ég að það verði að nást breið samstaða um það hvernig að slíku yrði staðið og hverjir eiga að taka þátt í þeirri stefnumörkun.

En ég segi þetta m.a. vegna orða sem hafa bæði fallið nú og oft áður í umræðunum í vetur og haust um aðild aðila vinnumarkaðarins svokallaðra, að þessum samningum. Og ég held að ég hafi tekið það rétt niður eftir hv. þm. Ágústi Einarssyni í hans upphafsræðu áðan, að þeim hafi verið tilkynnt að afskipta þeirra væri ekki óskað vegna samninganna í sumar og í haust. Þetta kom reyndar fram hjá fleirum.

Ég vil láta koma skýrt fram og segi við hv. þm. að svokölluð sjö manna nefnd sem varð til upp úr samningunum 1990--1991 var ekkert að ljúka störfum eða hætta sinni vinnu nú í sumar þegar við settumst niður við þessa samningagerð. Hún hafði í raun hætt sínum störfum fyrir u.þ.b. ári síðan eða meir. Líklega núna fyrir einu og hálfu ári síðan en ekki þegar samningagerðin hófst í sumar. Ég átti fundi með forsvarsmönnum ASÍ, BSRB, VSÍ og Vinnumálasambandsins sem eru þeir sem oftast eru kallaðir aðilar vinnumarkaðarins og ræddi við þá um áframhaldandi samskipti og aðild þeirra að samningagerð af þessu tagi. Ef einhver efast um orð mín ætla ég að leyfa mér, hæstv. forseti, að vitna til Fréttabréfs Alþýðusambands Íslands frá 17. október 1995 þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það skal tekið fram að landbrh. hefur sagt á fundi með aðilum vinnumarkaðarins að hann vildi að þeir kæmu að gerð búvörusamningsins og að haldið verði áfram því starfi sem var um stefnumörkun í landbúnaði.``

Það er ljóst að þetta staðfesta fulltrúar ASÍ í það minnsta og ég hygg að svo mundu fleiri gera ef eftir væri leitað. En við lentum hins vegar með málin má kannski segja, í þeirri stöðu í haust að ég fór fram á það við forsvarsmenn þessara samtaka að við fengjum að klára endurskoðun búvörusamningsins hvað sauðfjárþáttinn varðaði og síðan yrði haldið áfram viðræðum í svipuðu formi og þetta svokallaða sjömannanefndarstarf var. Nú er hins vegar ljóst að uppstytta hefur orðið í því efni. Ég vona og treysti því að sú afstaða aðila vinnumarkaðarins gagnvart þessari atvinnugrein sé ekki til frambúðar. Ég vil taka undir það með nokkrum hv. þm. að það er nauðsyn á breiðri samstöðu um þróun og stöðu íslensk landbúnaðar. Það er nauðsyn á sátt um þetta í þjóðfélaginu. Og það er nauðsyn á því fyrir landbúnaðinn sem slíkan að ég hygg til lengri tíma litið að við séum betur komin með atvinnugreinina í samráði og samstarfi við þessi stóru hagsmunasamtök en í stríði við þau. Það vona ég að við séum ekki og verðum ekki þó það kunni að vera eitthvað skiptar skoðanir eins og sakir standa um það sem við erum að gera núna.

Virðulegur forseti. Tíminn rýkur frá okkur og ég veit að það eru margir enn á mælendaskrá. Ég legg samt áherslu á að það náist samkomulag um að reyna að klára meðferð málsins nú fyrir mánaðamótin eins og ráð var fyrir gert þegar hv. Alþingi gerði nýlegar breytingar á búvörulögunum um að fresta ákvæðum um ákvörðun greiðslumarks til næstu mánaðamóta. Þess vegna er mjög brýnt að þessi nýju lög hafi tekið gildi fyrir þau tímamörk. En mig langar þó að gera athugasemd við örfá atriði sem komið hafa fram hjá hv. þm. Ég hef nokkuð fjallað um aðild aðila vinnumarkaðarins að málinu sem fram kom hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni. Mig langar aðeins að minna hann og aðra ágæta þingmenn á, af því að oft er talað um að Sjálfstfl. og Framsfl. beri ábyrgð á landbúnaðarstefnunni. Sjálfsagt gera þeir það að verulegu leyti enda báðir setið oft og lengi í ríkisstjórnum. En eitt lengsta samfellda stjórnartímabilið var þó svokölluð viðreisnarstjórn sem sat á árum áður með aðild Alþfl. og það var einmitt í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ákvörðun var tekin um útflutningsbætur sem hafa a.m.k. af hálfu sumra hv. þingmanna verið nokkuð gagnrýndar. Með þeim búvörusamningi sem enn er í gildi var ákveðið að leggja þær niður, svo það var umtalsverð stefnubreyting á því í tíð ríkisstjórnar sem Framsfl., Alþb. og reyndar Alþfl. líka áttu aðild að. Þá var þeim ákvæðum breytt sem komið var á og hafa kannski valdið miklu um þróun í íslenskum landbúnaði á undanförnum árum. En þessi ákvæði voru einmitt þau sem viðreisnarstjórnin setti þegar hún tók upp útflutningsbæturnar.

Auðvitað kom margt fleira fram í máli hv. þm. Bæði hann og aðrir hafa mikið fjallað um útflutningsmálin. Ég held, tímans vegna, virðulegur forseti, að ég fari ekki ítarlega út í það. En ég vil minna á það þegar verið er að tala um vandann varðandi útflutninginn að við höfum aðeins þrjú eða fjögur sláturhús sem geta framleitt kjöt á ákveðna erlenda markaði sem allir eru mikilvægir. Það er mikilvægt að viðhalda þeim mörkuðum. En við getum ekki náð samstöðu um að nýta þessa markaði og hús öðruvísi en að einhver leið sé til verðjöfnunar, einhver leið til þess að fá bændur til að starfa saman um það að nýta markaðina og þá auðvitað líka að nota húsin sem eru þau einu sem geta selt á þessa markaði.

Nú er það auðvitað svo að þessir markaðir eru því miður ekki merkilegir eins og er og verðið á útflutningskjötinu okkar allt of lágt þannig að ekki er í því einu sér mikill hvati til framleiðsluaukningar þessum samningi samfara. Um þetta ræddi ég allítarlega við 1. umr. um frv. og læt nægja að vísa til afstöðu minnar í því efni og má auðvitað fletta því upp.

Hv. þm. sagði þegar hann vitnaði til umsagna sem nefndinni bárust um málið og fór yfir þær margar, að nánast engin einasta jákvæð umsögn hefði komið fram. Ég hef ekki lesið þær svo ítarlega allar þó að ég hafi séð þær sumar og farið yfir efnisatriði þeirra. En ég vil þá aftur undirstrika og benda á það sem reyndar kom fram hjá hv. þm. að auðvitað eru skiptar skoðanir um samninginn og meira að segja eins og hann sagði, það eru skiptar skoðanir meðal bænda. Vissulega eru skiptar skoðanir meðal bænda og hjá fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu. Sennilega mundu flestallir ef ekki allir vilja hafa samninginn að einhverju leyti öðruvísi en hann er. Hann er ekki óskasamningur eins eða neins og e.t.v. er það ástæðan fyrir því að menn benda á það sem þeim finnst vera að samningnum og það sem þeir vildu hafa öðruvísi. En við stöndum stundum frammi fyrir ákveðnum raunveruleika í því efni sem ekki verður umflúinn.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir fór allmörgum orðum um samninginn. Ég ætla ekki að taka mörg atriði upp af því sem hún nefndi. Ég vil þó segja út af því sem hún nefndi um Jarðasjóð, að Jarðasjóðnum eru raunverulega ekki settar beinar skuldbindingar í samningnum. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að hann geti komið að málum ef bændur óska eftir því að selja ríkinu jarðir sínar um leið og þeir hætta búskap og auðvitað er gott að geta orðið við því í einhverjum tilvikum þar sem það á við. En ég vil lýsa þeirri skoðun minni sem almennri skoðun að ég held að ríkið eigi helst ekki að vera að safna að sér jörðum. Ríkið á að reyna að selja þær aftur og eins þær jarðir fjölmargar sem ríkið þegar á. Það á að auðvelda meira eignaskipti í þessu sambandi, auðvelda þéttbýlisbúum aðgang að ríkisjörðum. Þeir vilja margir hverjir fá aðstöðu til að eignast sælureit þar sem hægt er að stunda landgræðslu, skógrækt eða önnur útivistarstörf. Auðvitað er hestamennskan hluti af þeim tómstundum sem þéttbýlisbúarnir stunda nú og sums staðar eru ríkisjarðir sem vafalaust gætu hentað til slíkra hluta svo ég nefni aðeins eitt dæmi.

Hv. þm. nefndi líka að það væri lítill hvati til lífrænnar eða vistvænnar framleiðslu í samningnum. Við samþykktum sérstök lög um þetta á síðasta þingi. Þeim er auðvitað framfylgt og gert ráð fyrir þeim í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Sérstök verkefnisnefnd er að vinna að þeim málum og ég held að þetta sé í þeim farvegi sem Alþingi hefur ákveðið og ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af því að ekki verði áfram unnið að þessu. Ég nefni einnig upphæðir í samningnum sem varða hagræðingu, vöruþróun og umhverfisverkefni, fyrir svo utan það að í samningnum eru ákvæði um það að bændur geti samið sig frá því að halda fé og tekið að sér önnur verkefni, haldið beingreiðslunum en tekið að sér önnur verkefni á þessu sviði.

Ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir það traust sem hann ber til landbrh. og vona að hann sé þess trausts verður. Á það verður sjálfsagt að reyna og mér er alveg ljóst að það veltur mikið á framkvæmd samningsins og hvernig okkur tekst að standa við það sem hér er boðað. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði um framleiðslusprengjuna sem hann óttaðist að væri fram undan og ég hef aðeins tæpt á, en vísa aftur til framsöguræðu minnar við samninginn í upphafi.

Ég verð að segja að ég var fyrir ofurlitlum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur þar sem hún telur að hér sé verið að hverfa til fortíðar og verið sé að herða enn frekar laga- og reglugerðaviðjar að þessum atvinnuvegi. Mér finnst gæta mikillar óþolinmæði hjá hv. þm. og fullyrði að við erum á hinni leiðinni hvað þetta varðar. Við erum að draga úr stýringu, ofstjórn og miðstjórn á atvinnugreininni og í samningnum eru eins og margsinnis hefur komið fram ákvæði um frjálsari framleiðslu og frjálsari verðlagningu og stigin ákveðin skref á næsta ári og áfram á samningstímanum. Ég segi enn og aftur að ég tel að við séum á réttri leið.

Hæstv. forseti. Ég er búinn að tala lengur en ég ætlaði mér í upphafi. En það er eðlilegt því fjölmörgu hefur verið til mín beint í málinu og vafalaust er umræðunni ekki lokið. Það er því möguleiki að koma athugasemdum að aftur þó að ég voni enn að okkur takist að klára umræðuna nú þannig að hægt verði að ganga til afgreiðslu á þessu frv. fyrir mánaðamótin.