Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 11:29:44 (1527)

1995-11-30 11:29:44# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[11:29]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á búvörulögum í kjölfar samnings ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu á sauðfjárafurðum. Í meðförum hv. landbn. hefur frv. tekið allnokkrum breytingum. Í fyrsta lagi var nauðsynlegt að gera ýmsar tæknilegar breytingar á frv. sjálfu. Í öðru lagi er búið að gera efnisbreytingar í atriðum sem búast má við að geri samninginn trúverðugri og miklu líklegri til árangurs.

[11:30]

Mörg atriði í samningnum hafa valdið bændum óánægju. Það hefur komið fram í ræðu og riti af þeirra hálfu á undanförnum mánuðum og um það er fyrst og fremst þetta að segja: Athugasemdir þeirra og gagnrýni á samninginn og samningagerðina áttu við rök að styðjast. Þeir höfðu nokkuð til síns máls, enda þar menn á ferðinni sem vel til þekkja. Búvörusamningurinn er vissulega ekki fullkomið plagg, en báðir samningsaðilar þurftu að nálgast til að fá niðurstöðu.

Frá því að farið var að beita framleiðslutakmörkunum í sauðfjárrækt hafa bændur verið í erfiðri stöðu. Þeir hafa verið bundnir í viðjar í ferli sem þeir gátu litlu sem engu um ráðið sjálfir. Þeim er síðan stillt upp sem sökudólgum. Þeir eiga að fá svo og svo marga milljarða á tilteknu árabili. Framleiðslutakmarkanirnar, kvótastýringin frá 1980 eða 1979 hefur orðið til þess að bændur hafa ekki fengið að njóta árangurs vinnu sinnar. Eðlileg framleiðniaukning hefði átt að vera á þessum 15 árum 1--2% á ári, eða u.þ.b. 25% á 15 árum. Þess í stað hefur meðalbúið minnkað u.þ.b. um 30%.

Til hefur komið á þessu tímabili ný tækni við heyskap, við jarðrækt, aukin þekking og meiri færni. Það eru komin tæki sem t.d. skila meiri og jafnari fóðurgæðum og þannig mætti lengi telja. Margt það sem gerir auðveldara um vik að rækta fé sitt með árangri. En sauðfjárbændur hafa ekki fengið að auka framleiðnina. Þess í stað hefur hún minnkað. Þeim hefur verið sá kostur einatt nauðugur. Framleiðslustýring undanfarinna 15 ára hefur brugðist í allt of stórum og mörgum atriðum. Stýrikerfið hefur reynst ónothæft. Við erum að súpa seyðið af því. Búin hafa minnkað, framleiðnin einnig eins og ég sagði áðan. Nú þarf að verða breyting á, ný tök á málum.

Ef við værum núna á árinu 1980 og hefðum ekki valið kvótakerfið, þá værum við í þeirri stöðu sem við vonumst til að hafa náð um næstu aldamót, þ.e. að markaðurinn ráði framleiðslunni og menn hafi um það frelsi hvert þeir selja afurðir sínar. Reynslan hefur vissulega verið dýrkeypt en hana þarf að nota vel. Það er í öllu falli sárabót ef reynslan verður vel notuð.

Útflutningur landbúnaðarafurða, dilkakjöts, á vissu árabili milli 1960 og 1970 var tiltölulega hagstæður. Þá voru Evrópulönd með litla tolla og Íslendingar fengu í útflutningi 3 4 af innanlandsverðinu. Þá var gott að búa. Þá var gaman að auka og stækka búin, auka framleiðsluna. En síðan tóku Evrópulöndin upp ýmiss konar innflutningshöft og verðbólgan hér á landi gerði útflutninginn nær ómögulegan. Hvarvetna í kringum okkur í Evrópulöndum er landbúnaðurinn styrktur núna og verndaður. Hvers vegna gera menn það? Vegna þess að það borgar sig.

Spurningum um það hvort sauðfjárrækt á Íslandi sé styrkt fram úr hófi og miklu meira en gengur og gerist er því til að svara að það er aðeins nautakjötið sem er minna styrkt á mælikvarða OECD, þ.e. á PSE-mælikvarða sem er tekjuígildi stuðnings fyrir bændur. Þar kemur fram að stuðningur við sauðfjárrækt er 62% af framleiðsluverðmæti. Aðeins nautakjötið er neðar á kvarðanum með 51%. Í eggjum er stuðningur miðað við framleiðsluverðmæti 78%, 83% í mjólk, 85% í kjúklingum og 78% í svínakjöti. Það er eingöngu nautakjötið sem nýtur minni stuðnings en sauðfjárræktin. Hvers vegna er nautakjötið lægra? Kannski vegna þess að nautakjötsframleiðslan lifir í skjóli niðurgreiddrar mjólkurframleiðslu en hinar greinarnar í landbúnaði njóta allar eins og ég sagði meiri stuðnings á þennan kvarða mælt. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir gagnrýna stjórnvöld nú fyrir að setja lög sem skekki myndina fyrir samkeppnisgreinar kindakjöts eða sauðfjárræktar.

Þau ákvæði lagafrv. sem nú hafa tekið breytingum í meðförum hv. landbn. eru að mínum dómi öll til mikila bóta, þ.e. breytingar á samningnum eru bændum til hagsbóta en auka ekki útgjöldin fyrir almenning í landinu. Og það sem meiningin er að ná fram með þessum samningi er fyrst og fremst það að sauðfjárræktin á Íslandi, eða kindakjötsframleiðslan, svari þörfum markaðarins en það sem umfram er eigi möguleika á erlendum mörkuðum og að unnið verði markvisst að því að markaðssetja með árangri erlendis. Það verður á ábyrgð bænda og afurðastöðva hvernig tiltekst og jöfnunarákvæðin eru nú miklu minni heldur en gert var ráð fyrir í samningnum.

Vissulega hefur oft áður verið talað um að markaðir séu fyrir hendi erlendis, en menn eru í raun og veru að ná árangri þessa mánuðina í háu verði fyrir unna kjötvöru af íslensku sauðfé. Og gáum að því að við erum að taka fyrstu skrefin í að flytja út unnar kjötvörur og undir nýjum formerkjum, bæði lífrænt ræktað og svo með þeirri hollustu og hreinleika sem íslensk landbúnaðarvara almennt hefur. Gerum heldur ekki lítið úr því.

Þess má geta að Evrópumenn sjá hvergi svo lágar mælitölur mengunar. Hreinleiki íslenskra landbúnaðarafurða er staðfestur í rannsóknum, ekki aðeins lífrænt ræktað heldur allt.

Virðulegi forseti. Mikil vinna er fram undan í markaðssókn. Lífrænt ræktað lambakjöt er þar til stuðnings en ekki allsherjarlausnarorð að mínum dómi. En það er ástæða til að binda vonir við hvort tveggja. Ávinningurinn af meðferð landbn. á lögunum milli umræðna nú er einkum þessi:

Í fyrsta lagi er 70 ára reglan um aldurstakmark á því að starfa sem bóndi ekki lögfest. Sjötugur bóndi þarf ekki að hætta búskap. Í öðru lagi er verðjöfnun felld út að mestu leyti. Eftir stendur 30 kr. gjald á kg, ákvæði um verðmiðlun og verðjöfnun. Í þriðja lagi er reglugerðarheimid til landbrh. um skipulag útflutningsmálanna. Í gærkvöldi var það nefnt austantjaldsskipulag sem væri verið að koma á, fyrrv. austantjaldsskipulag, en þar væri um ofstjórn að ræða. Við gerum hins vegar ráð fyrir að ekki þurfi stjórnvaldsaðgerðir nema að mjög litlu leyti, að allir útflytjendur lambakjöts sjái sér hag af því að standa saman en bjóða ekki niður verðið hver fyrir öðrum á erlendum mörkuðum.

Þess má einnig geta að þær þjóðir sem lengst hafa náð í framleiðslu og sölu kindakjöts flytja ekkert út annað en unnar kjötvörur.

Í fjórða lagi er heimilt að nota ónýtt uppkaupafé í markaðsaðgerðir. Þar sem 70 ára aldursmörkin falla brott, eru líkur á því að eitthvert innkaupafé af þeim lið verði ónothæft en það verður heimilt að nota í markaðsaðgerðir. Því kemur þar inn meiri trygging fyrir eðlilegu birgðahaldi, minni birgðum og engum birgðum þegar frelsið kemur í greininni.

Þá er komið að því ákvæði sem ég hefði viljað sjá í samningnum en náði ekki fram og það er eina ástæðan fyrir því að ég gerði fyrirvara við nefndarálitið. Ákvæðið sem ég vildi ná fram strandaði á fulltrúum Bændasamtakanna, en erfitt hefði verið um vik að setja það inn og knýja það fram í andstöðu við þá. Þær endurbætur sem við höfum náð fram, verði frv. að lögum, eru það miklar að ég taldi ekki rétt að setja samninginn og þessi lög í nokkra hættu af þeim sökum. En í stuttu máli, gagnvart innanlandsmarkaðnum skulu þeir hafa jafnan rétt sem hafa takmarkað framleiðslu sína samkvæmt tilmælum og lögum, svo og þeir sem hafa þanið út framleiðslu sína og þeir sem hafa svindlað á kerfinu. Þeir sem hafa sprengt upp markaðinn og valdið öllum þessum vandamálum í birgðum í dag eiga nú að njóta sama réttar og hinir sem hafa farið að tilmælum og lögum í því að minnka framleiðslu sína og þrengja sinn kost. Nú á að koma inn með svartamarkaðskjötið, framhjásölukjötið inn á markaðinn og þannig stjaka við þeim í meiri útflutning í prósentum talið sem hafa lagað framleiðsluna að framleiðslutakmörkunum. Þetta er ekki réttlæti. Þetta eru því miður skilaboð til bænda að draga aldrei úr framleiðslu sinni heldur ganga þvert á kerfið og þenja sífellt út, burt séð frá markaðsþörf og eftirspurn. Hér er veikleiki og villa í öllu saman. Við þetta geri ég fyrirvarann.

Að öðru leyti stend ég að áliti meiri hlutans og tók fullan þátt í vinnunni og þakka þeim og nefndarmönnum öllum gott samstarf í landbn. Stóri ávinningurinn er sá að kvótakerfið er á útleið og er tími til kominn. Það hefur ekki orðið til hagsbóta, það hefur ekki náð árangri sínum, hvorki fyrir bændur né neytendur. Það er löngu tímabært að minnka bilið milli framleiðenda og neytenda að nýju. Það er engum til góðs að halda uppi sem andstæðum fylkingum bændum og neytendum. Bændur hafa ekki hug á öðru en stunda sín störf í sátt við umhverfi sitt, fólkið í landinu, sinna þörfinni fyrir framleiðsluna og hafa til þess svigrúm að framleiða með sem hagkvæmustum hætti. Lagafrv. og búvörusamningurinn gefur þegar á allt er litið mikla möguleika til þess að þessum markmiðum verði náð.

Hv. þm. Ágúst Einarsson talaði um framleiðsluaukninguna, hætta væri á því að framleiðslusprenging yrði á markaðnum og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ræddi það einnig í gærkvöldi að um væri að ræða framleiðsluhvetjandi kerfi sem við værum að taka upp með ákvæði í lögunum. Enn fremur sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að bændur þurfi að haga sér óskynsamlega til þess að frv. gangi upp. Þetta vona ég að sé ekki rétt og ég hygg svo ekki vera. Sauðfjárræktin er mjög víða orðin hlutastarf, ein greinin í tekjum heimilanna. Sumir munu fjölga, aðrir munu fækka fé, bændur taka um það ákvarðanir eftir sínum hagsmunum og aðstæðum. Ég hef fengið hagfræðinga til að reikna út fyrir mig hagkvæmni fækkunar niður í 0,7 vetrarfóðraða kind á ærgildi greiðslumarks. Fækkun er í mörgum tilfellum einnig hagkvæmari heldur en að standa í stað eða fjölga um eitthvert magn. Bóndi sem er t.d. með 6 tonna framleiðslu og fækkar til að komast hjá útflutningskvöð mun hagnast á því um 70--90 þús. kr. þegar öllu er til skila haldið. Vinnuliðurinn vegur að sjálfsögðu þungt í því dæmi. Á svæðum hins vegar þar sem erfitt er um vik að stunda aðra starfsemi koma menn sjálfsagt til með að fjölga fé og til þess þarf að gera þeim það kleift.

Fjárupphæðirnar í samningnum hafa verið nokkuð til umræðu. Hvað varðar fjármagnið í búvörusamningnum, þá er það ákveðin stærð. Sú upphæð er komin til sem niðurstaða í samningaviðræðum og um hana er ekki mikið að segja að öðru leyti. 1. minni hluti landbn. hefur lýst því að hann telji upphæðina ekki of háa, en vill vissulega aðrar leiðir í ráðstöfun fjárins svo sem þeir gerðu grein fyrir í gærkvöldi.

Meginatriðið er það að aðgerðirnar nái tilgangi sínum fyrir þjóðina og fyrir þá sem stunda þennan atvinnuveg, svo og það fólk sem á atvinnu sína undir landbúnaði í úrvinnslu- og þjónustugreinum. Um það eru nefndarmenn allir sammála. Skyndibreytingar og stórar sveiflur hlytu að verða til bölvunar. Menn verða líka að gæta að því að framleiðsluferlið er langt og það er erfitt um vik að breyta því nema á alllöngum tíma. Frv. sem byggir á búvörusamningnum tekur hins vegar ákveðin skref til meira frjálsræðis. Við erum að færa okkur frá ríkisafskiptum af búgreininni til þess ástands að greinin fái eðlilegt rekstrarumhverfi. Ég bið menn að gæta þess að hafa nægjanlega þolinmæði til þess. Ég hygg að á næstu árum verði svo mikil breyting í sauðfjárrækt á Íslandi að um það séu ekki dæmi síðan búvörulög yfirleitt voru sett.

[11:45]

Ég hygg líka að sauðfjárræktin sé íslensku samfélagi mikils virði. Við skulum gæta að því að vinnuaflið er allt íslenskt og fóðrið og flest annað tengt greininni. Úrvinnslan er öll innan lands og eins og áður sagði, við erum farin að flytja út unna kjötvöru og þar liggja einnig okkar möguleikar ef rétt er á haldið. Það er mikilvægt því aðstæður geta breyst og niðurgreitt erlent korn hækkar. Það berast um það fréttir að heimsmarkaðsverð á korni sé að hækka umtalsvert. Jafnvel hafi sumar korntegundir hækkað um 150% á síðustu 12 mánuðum, en algengt er að undanfarnar vikur hafi hækkunin numið 100%. Óhjákvæmilegt er að slík hækkun muni hafa áhrif á kjötverðið í þeim greinum landbúnaðar og það er vissulega áhyggjuefni. Þar á ég við hækkun á kjúklinga- og svínakjöti vegna hækkunar á fóðurverði til framleiðenda. En framleiðslukostnaður á kindakjöti mun hins vegar fremur lækka en hækka ef markmið búvörusamningsins og búvörulagafrv. ná tilgangi sínum, en til þess eru vissulega auknar líkur.

Fram hefur komið í umræðunni að allt of seint gangi. Á fundi hv. landbn. var sérstaklega fjallað um þetta. Er ekki hægt að fara hraðar í því að gefa verðlagningu frjálsa var m.a. spurt. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Ágúst Einarsson sem spurði og hlýtur að muna svarið. Nei, sagði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Nei, sagði Hagþjónusta landbúnaðarins.

Umsagnir þessara aðila og ýmissa fleiri eru neikvæðar, segir minni hlutinn og ýmsir sem hér hafa tekið til máls. Eðlilega hljóta þeir sem við köllum til umsagnar um frv. að benda á ýmislegt sem betur má fara. Við hljótum að kalla eftir því og þeir hljóta að hafa skilið sitt hlutverk þannig sem eru fengnir til að gefa umsagnir um lagafrv. að þar ætti að benda á það sem betur má fara, benda á hugsanlegar villur til þess að frv. komi betur út, verði réttara og þjóni þeim markmiðum sem því er ætlað. Til þess er beðið um umsagnir að leita þess sem betur má fara í þeim frumvörpum sem þingnefndir hafa til umfjöllunar. Eins og ég sagði, tók frv. umtalsverðum breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Ég vænti þess að það verði samþykkt og sauðfjárrækt og landbúnaður á Íslandi líti betri tíma fram undan til hagsbóta fyrir þá sem greinina stunda og fyrir þjóðina alla, neytendur ekki síður en aðra.