Fríverslunarsamningur Íslands og Litáens

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 12:57:04 (1542)

1995-11-30 12:57:04# 120. lþ. 46.1 fundur 192. mál: #A fríverslunarsamningur Íslands og Litáens# þál., 193. mál: #A fríverslunarsamningur Íslands og Lettlands# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[12:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 240 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands og Litáens og fyrir þáltill. á þskj. 241 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands og Lettlands.

Fríverslunarsamningar þessir voru undirritaðir í Kolding á Jótlandi 30. ágúst 1995. Fríverslunarsamningarnir eru hliðstæðir þeim samningum sem EFTA-ríkin hafa gert við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Samningarnir kveða á um fríverslun milli landanna með iðnaðarvörur. Þeir ná einnig til fisks og fiskafurða og til vara sem unnar eru að hluta til eða öllu leyti úr landbúnaðarafurðum. Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og nánar kveðið á um framkvæmd viðskipta með þær í sérstökum bókunum við samninginn.

Ég vík nú sérstaklega að fríverslunarsamningi við Litáen. Ísland og Litáen afnámu alla innflutningstolla á iðnaðarvörum sem upprunnar eru í þessum löndum og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku samningsins. Hið sama gildir um fisk og fiskafurðir nema að því er varðar nokkrar fisktegundir þar sem um aðlögunartíma er að ræða. Litáen fær níu ára aðlögunartíma til þess að afnema tolla á þurrkuðum, söltuðum og reyktum fiski, svo og á niðurlögðum og niðursoðnum fiski. Þó gerir samningurinn ráð fyrir því að strax við gildistöku hans taki gildi í Litáen tollfrjás innflutningskvóti fyrir saltsíld. Sá kvóti verður 300 tonn fyrsta ár samningsins. Hann stækkar síðan um 40 tonn á ári þar til hann hefur náð 500 tonnum.

Í sérstakri bókun með samningnum lýsir ríkisstjórn Litáens því yfir að á fyrsta fundi sameiginlegrar nefndar Íslands og Litáens um framkvæmd samningsins megi endurskoða hann með möguleika á því að auka saltsíldarkvóta.

Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarvörur. Spyrja mætti hvers vegna aðlögunartími fyrir niðurfellingu tolla á fiski er svo langur sem raun ber vitni. Skýringin er eftirfarandi:

Þegar Ísland samdi við Litáen hafði nýlega verið gerður fríverslunarsamningur milli Evrópusambandsins og Litáens. Samkvæmt þeim samningi fær Litáen varanlega undanþágu frá fríverslun fyrir margar mikilvægar fiskafurðir. Evrópusambandið féllst á að Litáen mætti halda háum tollum á söltuðum, reyktum, þurrkuðum og niðursoðnu fiski. Litáen vildi semja um það sama til Ísland. Samningamönnum Litáens var tjáð að Ísland gæti ekki gert fríverslunarsamning við Litáen nema tryggð væri full fríverslun með fisk og fiskafurðir, enda væri fiskur fríverslunarvara hjá EFTA. Litáar fóru þá fram á langan aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla á unnum fiski öðrum en frystum flökum. Var þá samið um níu ára aðlögunartíma. Tollar fara lækkandi á þessum aðlögunartíma en falla alveg niður að honum loknum.

Í samningaviðræðunum við Litáen lagði Ísland mikla áherslu á að fá tollfrjálsan aðgang fyrir saltsíld þar eð Íslendingar þurfa nýja markaði fyrir síldina og áhugi er í Litáen á íslenskri síld.

[13:00]

Herra forseti. Fríverslunarsamningurinn milli Íslands og Lettlands er að mörgu leyti mjög hliðstæður fríverslunarsamningnum við Litáen. Ísland og Lettland afnema alla innflutningstolla af iðnaðarvörum sem upprunnar eru í löndunum, svo og öll gjöld sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku samningsins. Samningurinn gerir ráð fyrir fjögurra ára aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla á vissum fiskafurðum. Tollar falla strax niður á öllum heilum, ferskum og frystum fiski nema á laxi og bristlingi. Hið sama gildir um fryst karfaflök og flök af flatfiski, svo sem lúðu og kolaflök. Hins vegar verður fjögurra ára aðlögunartími fyrir niðurfellingu tolla á söltuðum, reyktum, þurrkuðum og niðursoðnum fiski, svo og á frystum flökum öðrum en þeim sem ég gat um áður. Á aðlögunartímanum munu tollar fara lækkandi þannig að eftir tvö ár lækka tollar um þriðjung, eftir þrjú ár lækka tollar aftur um þriðjung og eftir fjögur ár falla tollarnir alveg niður.

Í fríverslunarviðræðunum við Lettland lagði Ísland mikla áherslu á saltsíldina eins og í viðræðunum við Litáen. Farið var fram á fulla fríverslun strax fyrir saltsíld. Ekki náðist það fram. Hins vegar náðist mun styttri aðlögunartími en í Litáen, eða fjögur ár. Einnig fékkst tollfrjáls kvóti fyrir saltsíld, 200 tonn á ári.

Í samningaviðræðunum var gerð bókun samningsaðila um að athugað yrði á fyrsta fundi sameiginlegrar nefndar hvort stækka megi saltsíldarkvóta. Eftir að fríverslunarsamningar við Litáen og Lettland höfðu verið undirritaðir hófust að frumkvæði annarra EFTA-ríkja, með samþykki Íslands og aðild Íslands, samningaviðræður milli EFTA-ríkjanna og allra Eystrasaltsríkjanna um gerð fjölþjóðlegra fríverslunarsamninga milli þessara aðila. Fyrir skömmu náðist samkomulag í þeim viðræðum. Er ráðgert að undirrita fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna og allra Eystrasaltslandanna á ráðherrafundi EFTA í Zermatt í Sviss 7. og 8. desember nk., þ.e. í næstu viku. Hinir fjölþjóðlegu samningar byggja í öllum aðalatriðum á tvíhliða samningunum milli einstakra EFTA-ríkja og Eystrasaltsríkjanna. Við munum reyna að flýta gerð þessa samnings hér á landi. Þýðing er þegar hafin og honum verður þá strax komið til utanrmn. því að auðvitað færi best á því ef hægt væri að ganga frá þeim samningi fyrir áramót og staðfesta hann hér á Alþingi því þá tækju samhliða gildi samningar við öll Eystrasaltsríkin þar sem EFTA-samningurinn nær til þeirra allra.

Herra forseti. Ég legg til að þáltill. þeim sem ég hef mælt fyrir verði vísað til utanrmn. að lokinni þessari umræðu.