Fríverslunarsamningur Íslands og Litáens

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 13:03:54 (1543)

1995-11-30 13:03:54# 120. lþ. 46.1 fundur 192. mál: #A fríverslunarsamningur Íslands og Litáens# þál., 193. mál: #A fríverslunarsamningur Íslands og Lettlands# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[13:03]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að hér eru lagðar fram þáltill. til staðfestingar á fríverslunarsamningum Íslands við tvö Eystrasaltsríkjanna. Þessir samningar hafa verið lengi í undirbúningi, frá því snemma árs 1993. Þetta eru viðamiklir samningar, sams konar samningar og Ísland sem eitt af EFTA-ríkjunum hefur áður gert við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Sannleikurinn er sá að þetta er viðamikil og flókin samningsgerð og nauðsynlegur liður í fríverslunarferlinu í Evrópu nú. Sumir kynnu að spyrja: Er ekki í óþarflega mikið lagt að útbúa samningsramma um svo lítil viðskipti? Því að sannleikurinn er sá að þótt Íslendingar hafi komið mjög við sögu við að tala máli Eystrasaltsþjóða í sjálfstæðisbaráttu þeirra á sínum tíma og eigi þar verðmæta, andlega inneign, þá eru þessi viðskipti í krónum og aurum býsna smá. Ef við lítum t.d. á Litáen, þá eru þær upplýsingar gefnar að fyrir árið 1994 voru útflutningsvörur okkar til Litáens um 20 millj. kr., 12,8 millj. veiðarfæri og 6,5 millj. prjónavörur, 2,4 millj. saltsíld. Innflutningsvörur voru tæplega 10 millj. kr., vefnaðarvörur og fiskmeti.

Að því er varðar Lettland eru tölurnar á þær leið að verðmæti útflutnings til Lettlands sama árið er 6,4 millj. en innflutningur þaðan 50,2 millj. Það sem helst sætir tíðindum um þessa samninga er það sem varðar saltsíldarmöguleika, þar sem þetta eru þjóðir sem hafa langa hefð fyrir því. En spurningin er hvort kaupmátturinn leyfir það á samkeppnishæfu verði að þessir markaðir þróist, þótt samningsniðurstaðan sé ásættanleg.

Það er ástæða til þess fyrir okkur þegar við ræðum fríverslunarsamninga við þessar þjóðir að spyrja sem svo: Hver er reynslan frá árinu 1991, eftir að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til þess að viðurkenna endurheimt sjálfstæði þessara ríkja, af uppbyggingarstarfinu með þessum þjóðum? Hvað segir þessi reynsla okkur um það hvernig þeim hefur tekist til í framkvæmd við að treysta undirstöður sjálfstæðis síns að því er varðar uppbyggingu á atvinnu- og efnahagslífi, utanríkisverslun fyrir nú utan að byggja upp allt annars konar hagkerfi byggt á markaðskerfi, samkeppni, frjálsum utanríkisviðskiptum og því um líku.

Sannleikurinn er sá að það er erfitt fyrir þá sem utan standa að átta sig á hvers konar erfiðleikatímabil það er sem menn þurfa að ganga í gegnum og þjóðir þegar á tiltölulega skömmum tíma þarf að umbreyta þjóðfélögum sem áratugum saman hafa búið við miðstýrðan efnahagsbúskap, lögreglustjórn og valdstjórnarfyrirkomulag af því tagi sem sovét-kommúnisminn var Ef við lítum fyrst til Litáens má segja að helstu erfiðleikarnir séu nú þegar að baki. Fyrstu tvö árin eftir að sjálfstæðið var endurheimt voru hins vegar miklir hörmungartímar. Þjóðarframleiðsla fór niður á við, hún minnkaði um það bil á helming á fyrstu 2--3 árunum. Verðbólga fór yfir 1000% á tímabili. Lífskjör fólks hrundu eins og gerist alls staðar í þessum löndum við sambærileg skilyrði. Kaupmáttur varð fórnarlamb þessarar óðaverðbólgu og gríðarleg þjóðfélagsleg spenna myndaðist að sjálfsögðu vegna þess að væntingarnar voru allt aðrar hjá öllum þorra almennings en reynslan síðan leiddi í ljós.

Nú má segja að þessir erfiðleikar séu að baki að því leyti að þjóðarframleiðslan er hætt að hrynja og á yfirstandandi ári ef spáð hagvexti, t.d. í Litáen um 5%. Og í þeirra eigin áætlunum og spám fram á við, þ.e. út þessa öld, gera þeir jafnvel ráð fyrir miðað við gefnar forsendur að hagvaxtarskeið geti hafist með allt að 5--9% hagvexti á ári ef allt tekst til eins og best getur orðið. Þeim hefur tekist þokkalega, öllum löndunum, kannski Eistum best við aðalatriði þessara umbreytinga, þ.e. koma sér upp sjálfstæðri mynt, sem er frjáls á erlendum gjaldeyrismörkuðum. Verðbólgan almennt séð er komin í 20% eða jafnvel undir það. Þeir hafa lokið því verki að koma á löggjöf um frjálst viðskiptahagkerfi, um fjármagnsmarkaði, gjaldeyrismarkaði, utanríkisviðskipti o.s.frv. Einkavæðing, þ.e. að koma ríkisreknum fyrirtækjum í hendurnar á almenningi, hefur tekist bærilega. Í Litáen mun um 60% vinnandi fólks starfa utan opinbera geirans. En það sem einna helst hefur staðið á er þátttaka erlends áhættufjármagns í þessum löndum. Þar sker sig úr að erlent fjármagn hefur langsamlega verið mest í Eistlandi. Ef við tökum Litáen sem dæmi, þá er það nú að nálgast hálfan milljarð Bandaríkjadala. Okkur þætti það umtalsverð upphæð hér á landi þar sem við höfum enga erlenda fjárfestingu haft í 20 ár. En aðalatriðið er þó hverjar horfurnar eru fram undan um framhald efnahagslegrar uppbyggingar á þessum forsendum og þær eru þessar:

Ef við lítum t.d. á sænskar skýrslur um Eystrasaltssvæðið, þá gefa þeir sér að undirstöðu samtengt svæði: Svíþjóð, Danmörk og Finnland af Norðurlöndunum, Pétursborgarsvæðið í Rússlandi, Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland, Litáen, uppbyggingin í Póllandi, hin risavaxna uppbygging og umskipti sem orðið hafa í austurhluta Þýskalands fyrir atbeina vestur-þýskra stjórnvalda. Þetta skapar eitt samfellt efnahagssvæði með um 50 millj. íbúa. Þar eru yfir 50 borgir með yfir 100 þúsund íbúa og þar er fjárfesting, að verulegu leyti frá Evrópusambandinu í stofnanaramma þjóðfélaganna, að komast á skrið og verða gríðarleg. Þar á ég við nýtt samgöngukerfi járnbrauta, vega, flugvalla sem eru af gríðarlegri stærðargráðu. Ef friður helst í þessum heimshluta, ef markmið þessara þjóða um að ná inngöngu í Evrópusambandið snemma á næstu öld nær fram að ganga, ef öryggismál þeirra verða tryggð með útvíkkun NATO, þá er ekki nokkur vafi á því að þarna verður eitt mesta hagvaxtarsvæði Evrópu á næstu öld.