Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 13:19:55 (1544)

1995-11-30 13:19:55# 120. lþ. 47.1 fundur 204. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (frestun greiðslumarks) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur


[13:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir litlu frv. Það er ekki nema tvær greinar og lætur ekki mikið yfir sér. Efni frv. er þar að auki að verða hv. þm. nokkuð kunnugt. Það felur í sér að fresta einu sinni enn ákvörðun sem landbrh. þarf að taka um heildargreiðslumark sauðfjárafurða fyrir verðlagsárið 1996--1997. Farið er fram á að sá frestur verði framlengdur frá morgundeginum, 1. des. til 6. des. þar sem ekki er lokið í hv. Alþingi umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum, nauðsynlegum breytingum sem tengjast búfjársamningnum sem gerður var milli Bændasamtaka Íslands og ríkisstjórnarinnar og dags. var 1. okt. sl. Hv. Alþingi þekkir málið og málavexti. Ég vona að fullkomin samstaða sé um að afgreiða málið með þessum hætti þannig að umræðan í gær og dag um breytingar á búvörulögunum geti haldið eðlilega áfram eftir helgina. Tími til umræðu hefur verið naumur. Nefndastörfum lauk í gærmorgun. Nefndarálitum var dreift upp úr hádegi og umræða hófst ekki fyrr en síðdegis þannig að öllum er ljóst að tími til umræðunnar hefur verið mjög knappur, en ég vona að með þessu náist betri sátt um afgreiðslu málsins. Þessi frestur sem beðið er um til 6. des. dugir til að hægt sé að ljúka umræðu um hið fyrra mál sem ég hef nefnt og ljúka afgreiðslu þess þann 7. des.

Málið hefur verið rætt við einstaka nefndarmenn í landbn. þannig að ég geri ekki tillögu um því verði vísað til hv. landbn. Ég held að á því sé ekki þörf þar sem öllum nefndarmönnum er kunnugt um það og hafa áður fjallað um frv. sama eðlis. Ég óska því eftir að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.