Ástand Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:25:08 (1559)

1995-12-04 15:25:08# 120. lþ. 50.1 fundur 117#B ástand Reykjavíkurflugvallar# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgrh. Það hefur komið fram ítrekað að ástand Reykjavíkurflugvallar er mjög slæmt og að mati ýmissa sérfræðinga á hættumörkum. Flugmenn sem þurfa að lenda á vellinum veigra sér margir hverjir við að lenda þar. Viðhald á flugbrautum og flugvellinum í Reykjavík hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Í framkvæmdaáætlun flugmálanefndar frá 1986 var gert ráð fyrir að endurnýja slitlag á flugbrautum auk þess að reisa þar nýja flugstöð. Það varð ekkert úr þeim framkvæmdum. Í skýrslu frá árinu í ár frá Flugmálastjórn kemur fram að um 70 þúsund fermetra vantar á að flugvöllurinn uppfylli skilyrði um breidd brauta, axlir og endaöryggissvæði, halli sé ófullnægjandi fyrir afvötnun, sléttleiki alls ófullnægjandi, merkingum áfátt og ljósabúnaður sé rangt staðsettur, malbik í slæmu ástandi og steypa á vellinum víða mikið brotin.

Samkvæmt flugmálaáætlun 1994--1999 er áætlað að gera endurbætur á Reykjavíkurflugvelli 1997. Ég spyr því hæstv. samgrh.: Hvað ætlar hann að gera varðandi ástand Reykjavíkurflugvallar og telur hann stætt á að bíða með framkvæmdir til 1997 eins og gert er ráð fyrir í flugmálaáætlun?