Ástand Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:27:00 (1560)

1995-12-04 15:27:00# 120. lþ. 50.1 fundur 117#B ástand Reykjavíkurflugvallar# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi tekið töluverðan tíma fyrir hv. þm. að koma öllum þessum lýsingarorðum saman sem voru í hennar stuttu fyrirspurn og er aðdáunarvert raunar hvað hv. þm. er leikin í þeim efnum.

Um Reykjavíkurflugvöll er það annars að segja að hann dugir fyrir innanlandsflugið. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm., og ég man ekki betur en þetta mál hafi komið upp á þinginu fyrr á þessum vetri, að það fer að verða brýnt að endurbæta flugvöllinn. Á hinn bóginn hefur komið upp sú skoðun, m.a. hjá forseta borgarstjórnar, að það sé rétt að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og hafa borgaryfirvöld verið með óljósar ræður í því sambandi þannig að ég hef haft samband við borgarstjóra um það. Við munum hittast og ræða sérstaklega um samgöngumálin hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hygg að það mætti vel una því ef tækist að ráðast strax í endurbætur á Reykjavíkurflugvelli eftir tvö ár. Ég er ekki viss um að það takist, en ég hygg að hitt sé rétt hjá hv. þm. að við verðum að fara að huga að því hvernig og hvenær við getum hafist handa um endurbætur á flugvellinum.

Ég hygg að það sé enginn háski á ferðum. Ég hef ekki heyrt um það frá þeim mönnum sem öryggis gæta en áminning í þessum efnum er holl.