Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:59:08 (1570)

1995-12-04 15:59:08# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. 1. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[15:59]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal flutti hreinskilna og góða ræðu. Hann sagði: Þessi samningur er lélegur og vondur, hann er stefnulaus, hann bætir ekki stöðu bænda. Það er framleiðsluaukning í þessum samningi. Þetta er allt rétt með farið og sýnir skarpskyggni hv. þm. varðandi þetta mál. Þetta eru sömu röksemdir og minni hlutinn hefur notað um þennan samning, hluti af þeim röksemdum. Hann leggst gegn samningnum af skynsemi. Það sem hins vegar er ástæða til að gera að umtalsefni er spurning sem ég vil varpa til hv. þm. Er hann eini þingmaður Sjálfstfl. sem er með þessa skoðun? Er hann fjarvistarsönnun Sjálfstfl. í þessu máli, maðurinn sem talar fyrir skynsamlegri efnahagsstjórn í landbúnaðarmálum þvert á flokksbræður sína? Hvernig stendur á því, hv. þm. Pétur Blöndal, að sjónarmið sem þingmaðurinn lýsti njóta ekki meiri hljómgrunns í þingflokki Sjálfstfl.? Ég held að það sé brýnt, herra forseti, að fá skýr svör við þessum spurningum.