Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:29:48 (1573)

1995-12-04 16:29:48# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:29]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir tiltölulega hógværa ræðu um landbúnaðarmál. Hann fór bæði yfir fortíðina og eitthvað af framtíðinni í ræðu sinni. Hann talaði um útflutningsuppbætur o.s.frv. Þegar við hugsum um fortíðina, þá spyr ég: Hverjir tóku upp útflutningsuppbætur, mestu framleiðslusprengingu allra tíma? Hverjir voru þá í ríkisstjórn? Skyldi það ekki hafa verið 1959 þegar Sjálfstfl. og Alþfl. voru í ríkisstjórn svo að við höldum fortíðinni til haga. Ég sótti undir ræðu hv. þm., bók Einars heitins Ólafssonar í Lækjarhvammi, Af Halamiðum á Hagatorg, þar sem hann rifjar upp hvernig þetta gerðist. Hann rekur það að fljótlega eftir stjórnarmyndun 1959 hittu forustumenn Framleiðsluráðs og bænda Ólaf Thors forsrh. og Gylfa Þ. Gíslason menntm.- og viðskrh. Þeir fóru yfir stöðuna um hvað mikilvægt væri að hafa landbúnaðarframleiðsluna þannig að menn ættu eitthvert forðabúr. Síðan segir hann, með leyfi forseta, á þessa leið:

,,Ólafur Thors var á okkar bandi og taldi nauðsynlegt að einhver umframframleiðsla væri í landinu. Málið fór um hendur Ingólfs Jónssonar, landb.- og samgrh., og Sveins Tryggvasonar, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs. Þegar lögin um útflutningsbæturnar voru samþykkt urðum við fulltrúar Stéttarsambandsins og Framleiðsluráðsins undrandi. Í stað þess að greiða útflutningsbætur fyrir 10% af neyslunni innan lands skyldi greiða fyrir magn er næmi 10% framleiðslunnar. Það er munur á neyslu og framleiðslu því að framleiðslan jókst miklu hraðar en neyslan.``

Þarna var framleiðslusprengjan gerð virk. Síðan rekur Einar Ólafsson að Alþfl. hafi aldrei minnst á þetta mál meira fyrr en hann kom í stjórnarandstöðu. Þannig er það oft og tíðum með blessaðan Alþfl. En þetta er svona til þess að halda sögunni til haga. Alþfl.var þátttakandi í þeirri stefnu sem kannski leiddi síðar af sér kvótakerfið og þennan mikla vanda framleiðslunnar.