Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:59:43 (1583)

1995-12-04 16:59:43# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:59]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður sér að Kvennalistann er hollur fortíðinni. Mér finnst þegar Kvennalistinn talar sé hann minnugur þess sem í Biblíunni stendur: Ræða þín skal vera já já og nei nei.

Hv. þm. hefur komið inn á ýmis atriði og sér ekki framtíðarsýn í samningnum. Ég held að það sé reyndar ekki rétt. Auðvitað veltur mjög mikið á framkvæmdinni. Ég held að öllum sé ljóst að samningurinn mun kalla á lækkað vöruverð. Það verður hagræðing í milliliðum og lambakjötið verður samkeppnishæft miðað við aðrar kjötgreinar sem þýðir lækkun hér á kjötvörum o.s.frv. Um þetta atriði má segja að minni munur er á kjötverði hér en víða erlendis. Það er kannski rauðvínið og bjórinn sem menn þurfa með steikinni sem er enn þá í óhagstæðari hlutföllum hér en úti í Evrópu. Það eru auðvitað mörg atriði sem ber að hafa í huga en menn verða að hafa þetta allt saman í samhengi.

Ég spyr hv. þm. sem gagnrýnir frv. hvernig hann sjái fyrir sér styrki og hvort hann styðji þær breytingar sem gerðar eru. Menn geta fengið beingreiðslur og minnkað við sig framleiðslu. Menn geta nýtt tímann til að fara í annað o.s.frv. Hugnast Kvennalistanum og hv. þm. þessi breyting á samningnum og sér þingmaðurinn ekki fyrir sér að með því að gera lambakjötið samkeppnishæfara muni kjötverð hér lækka í verði?