Afgreiðsla mála

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 14:34:20 (1595)

1995-12-05 14:34:20# 120. lþ. 53.92 fundur 126#B afgreiðsla mála# (aths. um störf þingsins), KÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[14:34]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að nota þetta ákvæði þingskapa um umræður um störf þingsins í upphafi fundar til þess að gera athugasemd við ummæli hv. þm. Ragnars Arnalds sem hann lét falla við atkvæðagreiðslu hér áðan þar sem hann túlkaði þingsköp á þann máta að það að taka þátt í að vísa máli til 3. umr. þýddi að þar með væri viðkomandi þingmaður að samþykkja málið. Ég hef ótal sinnum eins og líklega flestir þingmenn sem hér eiga sæti tekið þátt í því að greiða fyrir þinglegri meðferð mála þó að ég hafi verið þeim innilega ósammála. Ég lít svo á að með því að vísa máli milli 1. og 2. umr., þá sé verið að vísa málinu til meðferðar í nefnd. Og reyndar einnig með því að vísa máli á milli 2. og 3. umr., þá er verið að gefa kost á því að skoða málið frekar í nefnd og reyndar var haldinn örstuttur fundur í landbn. nú á milli 2. og 3. umr. Ég lít svo á sem hér sé um þingvenju að ræða og ég mótmæli þeirri túlkun að þar með sé viðkomandi þingmaður að leggja blessun sína yfir málið. Það er við 3. umr. sem atkvæði eru greidd við málið í heild og þá kemur í ljós hver endanlegur vilji þingmannsins er, en að mínum dómi snýst málið um þinglega meðferð.