Afgreiðsla mála

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 14:40:18 (1598)

1995-12-05 14:40:18# 120. lþ. 53.92 fundur 126#B afgreiðsla mála# (aths. um störf þingsins), RA (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[14:40]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil einungis ítreka þá skoðun mína sem hér kom fram áðan að það er gömul þingvenja að efnisleg afgreiðsla fari fram við 2. umr. og þá láti menn í ljós endanlega afstöðu sína til málsins og ef þeir eru á móti málinu, þá greiði þeir atkvæði gegn því að málið farið til 3. umr. Þetta á ekkert skylt við það að menn séu hins vegar samþykkir því að mál fái að koma fyrir og samþykki afbrigði aftur við 3. umr. vegna þess að það er nokkuð almenn þingvenja að menn eru því samþykkir. Menn vilja láta mál koma fyrir og það má mikið ganga á til þess að menn hafni því að mál sé tekið fyrir og neiti afbrigðum. Þetta tvennt er auðvitað alveg óskylt og ég vil síður en svo að þessu sé blandað saman.

Ég var fyrst og fremst að halda til haga því sjónarmiði mínu sem hefur lengi verið hér ríkjandi, sérstaklega í hinum stærri málum. Ég undanskil auðvitað t.d. fjárlagafrv. sem er þess eðlis að það verður að afgreiða. Það eru allir sammála um það. Og það dytti engum í hug að greiða atkvæði á móti því að vísa fjárlagafrv. til 2. umr. Þannig geta verið fleiri mál sem við erum öll sammála um að þingið á og verður að afgreiða í einhverjum búningi og þá hleypum við þeim til 3. umr. Höfum við aftur á móti mótaða skoðun á því hver sé afstaða okkar til málsins og viljum við að það nái ekki fram að ganga, þá er rökrétt og eðlilegt að láta þá skoðun í ljós strax við 2. umr.