Fjáraukalög 1994

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:13:33 (1606)

1995-12-05 15:13:33# 120. lþ. 53.4 fundur 45. mál: #A fjáraukalög 1994# (niðurstöðutölur ársins) frv., Frsm. minni hluta KH
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:13]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta fjárln. sem er á þskj. 275 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er leitað eftir staðfestingu Alþingis á niðurstöðutölum fjárlaga ársins 1994. Samkvæmt því hafa innheimtar tekjur orðið 2,8 milljörðum kr. hærri en fjárlög og aukafjárlög 1994 gerðu ráð fyrir. Þá voru gjaldaheimildir samkvæmt fjárlögum og aukafjárlögum 2,8 milljörðum kr. hærri en gjöldin urðu í raun, og endanlegur halli á rekstri ríkissjóðs varð því 7,4 milljarðar kr. árið 1994 eða 2,3 milljörðum kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir og heilum 5,6 milljörðum kr. lægri en reiknað var með við afgreiðslu fyrri fjáraukalaga ársins 1994. Sú niðurstaða gefur ekki tilefni til hárra einkunna fyrir áætlanagerð.

Fjárlaganefnd óskaði eftir áliti Ríkisendurskoðunar, og í greinargerð hennar er m.a. bent á að gjaldaheimildir hafi hækkað frá fjárlögum um 7,5 milljarða kr. eða um 6,6%. Á móti þeirri hækkun hafa gjaldaheimildir hins vegar verið lækkaðar um 4,3 milljarða kr. eða um 3,8%. Heildarbreytingar á gjaldahlið nema því um 10% sem verða að teljast mjög mikil frávik, og sýnir þetta enn einu sinni hversu erfiðlega gengur að setja raunhæf fjárlög. Alvarlegra er þó að ríkisstjórnin ákveður og framkvæmir flestar þessar breytingar án þess að bera þær undir Alþingi fyrr en eftir á. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að á þessu verði breyting og leitað verði fyrir fram eftir samþykki Alþingis til fjárveitinga umfram heimildir fjárlaga. Gera þarf fjárlaganefnd kleift að fylgjast betur með framkvæmd fjárlaga og fjalla um allar hugsanlegar breytingar jafnóðum og tilefni gefast.

Minni hlutinn tekur undir það sem Ríkisendurskoðun segir í áliti sínu að telja verði ,,að framsetning frumvarpsins sé ekki nægilega skýr þannig að fyrir liggi hvað afgreiðsla frumvarpsins í raun felur í sér, einkum er varðar afgreiðslu fjárheimilda einstakra stofnana og viðfangsefna``. Er í rauninni hálfgerð gestaþraut að þræða sig í gegnum einstaka liði og átta sig á niðurstöðum heildardæmisins þar sem ýmist er verið að sækja um heimildir vegna umframgjalda eða til niðurfellingar heimilda vegna ónotaðra fjárveitinga.``

[15:15]

Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar felur samþykkt frv. í sér eftirfarandi breytingar á gjaldahlið:

Viðbótargjaldaheimild á árinu 1994 nemur 180 millj. kr.

Gjaldaheimildir, sem falla niður í árslok 1994, nema 1 milljarði 480 millj. 500 þús. kr.

Gjaldaheimildir vegna stofnframkvæmda árið 1994 sem fluttar eru til ársins 1995 nema tæpum 1,2 milljörðum kr.

Gjaldaheimildir vegna tilfærslu árið 1994, sem fluttar eru til ársins 1995, nema 362,6 millj. kr.

Gjaldaheimildir vegna reksturs árið 1994, sem fluttar eru til ársins 1995, nema 577,9 millj. kr.

Heimild til lækkunar gjaldaheimilda 1995 nema 616,5 millj. kr.

Til lækkunar eru þá 2 milljarðar 818 millj. og 600 þús. kr.

Með frv. er verið að leita staðfestingar Alþingis á þegar orðnum greiðslubreytingum og hefði þurft að afgreiða það miklu fyrr. Minni hlutinn gerir ekki frekari athugasemdir við einstakar greinar þess en mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Undir álit minni hlutans skrifa auk mín Bryndís Hlöðversdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.

Herra forseti. Eins og segir í upphafi þessa nefndarálits er hér um að ræða niðurstöðutölur fjárlaga ársins 1994 og í rauninni aðeins verið að biðja Alþingi að stimpla þessa pappíra fyrir ráðuneytin. Það er því ekki um það að ræða að breyta einu eða neinu. Annaðhvort segja menn já og amen eftir efninu eða sitja hjá eins og við kjósum að gera sem stöndum að þessu áliti. Það hlýtur að vera rökrétt niðurstaða þeirra sem litla ábyrgð bera á fjárlagadæminu, en auðvitað kemur alltaf til greina að greiða atkvæði gegn einstökum liðum þótt það hafi í sjálfu sér engin áhrif löngu eftir á, en ekki sjáum við ástæðu til þess að þessu sinni a.m.k.

Mig langar til að árétta þrennt af því sem fram kemur í þessu nefndaráliti ef það mætti verða til að vekja menn til frekari umhugsunar. Í fyrsta lagi vil ég nefna þau afleitu vinnubrögð framkvæmdarvaldsins að taka í rauninni fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis með því að ráðherrar leggja blessun sína yfir framúrkeyrslu og ákvarða fjárveitingar af ýmsu tagi án þess að leita samþykkis Alþingis fyrr en fjármununum hefur verið eytt. Þetta gera þeir í krafti síns ráðherravalds og í trausti á stuðning meiri hlutans, en gefa í mörgum tilvikum hvorki meiri hluta né stjórnarandstöðunni færi á að fjalla um gjörðir sínar sem þeir kalla tillögur fyrr en eftir á, oftar en ekki löngu síðar. Þessi vinnubrögð eru ekki bara vond heldur beinlínis ósiðleg og raunar gjörsamlega óþörf. Alþingi situr allt árið, nefndir starfa allt árið og það er hægur vandi að gera fjárln. kleift að fylgjast miklu betur með framkvæmd fjárlaga. Vissulega hefur orðið breyting á á síðustu árum eða a.m.k. síðan ég fór að fylgjast með þessum málum. Ríkisendurskoðun fylgist með framkvæmd fjárlaga og gefur skýrslu a.m.k. tvisvar á ári, en það er ekki nóg. Og sérstaklega er það ósiður að ríkisstjórnin taki sér það vald að eyða fé út og suður án þess að leita heimildar Alþingis fyrr en eftir á. Slíkt á ekki að gerast og þessum vinnubrögðum verður að breyta.

Í öðru lagi vil ég ítreka það sem segir í nefndarálitinu um breytingarnar á fjárlögunum. Þær eru allnokkrar. Auðvitað er rétt að gleðjast yfir því að endanlegur halli á ríkissjóðsdæminu 1994 varð 2,3 milljörðum kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir og vitaskuld ánægjulegt að skekkjan varð í þá áttina. Nóg er nú samt að þurfa að sætta sig við halla upp á 7,4 milljarða kr. En takið eftir því að við afgreiðslu fyrri fjáraukalaga ársins 1994, sem samþykkt voru seint það ár, töldu menn nauðsynlegt að samþykkja þær breytingar á fjárlögum ársins að hallinn yrði 5,6 milljarðar kr. Maður spyr sig hvernig í ósköpunum sérfræðingarnir í ríkisfjármálum geta reiknað svona kolvitlaust þegar fjárlagaárinu var að ljúka og flestar greiðsluhreyfingar hefðu átt að vera orðnar ljósar.

Í greinargerð með frv. segir ósköp blátt áfram að nokkrir stórir liðir hafi verið ofmetnir, svo sem atvinnuleysisbætur, vextir og ríkisábyrgðir. Mér finnst það gjörsamlega með ólíkindum að mönnum með fingurinn á púlsinum skuli takast að meta liði af þessu tagi svona hrikalega vitlaust á þessum tíma. Það eflir ekki beinlínis traust á því að rétt sé reiknað yfirleitt við undirbúning fjárlaga. Látum vera þótt skakkaði einhverjum tugmilljónum vegna óvæntra atvika eða menn hefðu kannski ekki munað eftir afborgun af einhverju láninu, en að það skuli muna nær 3 milljörðum á gjaldahlið og öðru eins á tekjuhlið er með ólíkindum. Manni dettur helst í hug að þetta hefði átt að vera eitthvert sálrænt trikk svo að þjóðin gæti glaðst þegar í ljós kom betri staða en gert var ráð fyrir. En ég ítreka það að svona kúnstir eru ekki til þess fallnar að auka traust á lagasetningu af þessu tagi.

Í þriðja lagi vil ég aftur draga athygli að framsetningu frv. sem ég er eiginlega enn að reyna að skilja. Sjálfsagt er þar um nokkra tregðu að ræða hjá undirritaðri, en þá hljóta fleiri að hafa lent í sama vanda því að meira að segja Ríkisendurskoðun sér ástæðu til að geta þess í sínu áliti að framsetning frv. sé ekki nægilega skýr. Ég legg til að hv. þm. lesi kaflann á bls. 10--11 í greinargerðinni með frv. sér til skemmtunar og velti því fyrir sér hvort ekki væri hugsanlegt að setja þetta svolítið skilmerkilegar fram. Það eru náttúrlega þessar tilfærslur og flutningar fram og til baka sem gera mann dálítið ruglaðan, þar sem verið er að reyna að ná utan um allt dæmið, bæði umframgreiðslur og óhafnar fjárveitingar, eins og það er kallað, en mér finnst reyndar skiljanlegra að tala um ónýttar fjárveitingar. Sumar umframgreiðslur eru svo látnar koma til frádráttar á framlögum næsta árs en þó ekki allar. Sumar ónýttu fjárveitingarnar fá að standa og nýtast næsta ár, þ.e. á þessu ári, en ekki allar, og þetta er sem sagt hin mesta kúnst að þræða sig í gegnum þetta og ná landi í þessum talnasjó. Niðurstöðurnar má lesa í töflunni í nefndarálitinu og vona ég að hv. þm. séu nú einhverju nær. Með þessu er ég alls ekki að gagnrýna sjálfan tilflutninginn sem er í rauninni af hinu góða og til bóta í ríkisrekstrinum. Þannig var það tekið upp til nýbreytni fyrir nokkrum árum að heimila flutning milli ára á ónotuðum fjárheimildum ríkisstofnana til almenns rekstrar á sama hátt og gilt hafði með ónotuð framlög til stofnframkvæmda og viðhalds. En skilyrði fyrir slíkum tilflutningi rekstrarfjár á þó að vera að sparnaður hafi náðst með hagræðingu en ekki með skerðingu á þjónustu. Ekki er ég viss um að þau skilyrði séu alltaf uppfyllt en tilgangurinn er ágætur og væri verðugt verkefni að fara yfir þessi mál og meta reynsluna.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Alþingi stendur aðeins frammi fyrir orðnum hlut. Það eru hv. núverandi og fyrrv. stjórnarþingmenn sem bera ábyrgð á þessu dæmi og minni hlutinn mun sitja hjá eins og stendur í lok nefndarálitsins.