Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:48:42 (1616)

1995-12-05 15:48:42# 120. lþ. 53.3 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef lýst miklum efasemdum við ýmsa þætti þessa samnings og mun ekki greiða honum atkvæði. Samningurinn er að mínu mati sérkennileg blanda af ofstjórn og miðstýringu og frjálshyggju. Ég er þeirrar skoðunar að það sé yfirleitt vondur kokkteill og gefist illa.

Vandi sauðfjárbænda er hins vegar mikill og það er eðlilegt að þeir bændur vilji frekar slakan samning heldur en engan þannig að ég treysti mér ekki til að vísa í þeirra afstöðu varðandi samvisku mína í þessu máli sökum þess m.a. í hvaða stöðu þeir voru auk þess sem ég ræð mínu atkvæði sjálfur.

Hér eiga einnig aðild að máli að hluta til sömu flokkar og stóðu að síðustu ríkisstjórn sem vanefndu stórkostlega síðasta búvörusamning þannig að það vantar miklar fjárhæðir upp á að staðið hafi verið við framlög til annarrar atvinnuuppbyggingar í sveitum og til átaks í umhverfismálum, í landgræðslu og skógrækt, auk þess sem sú ríkisstjórn aðhafðist ekkert gagnvart þeim vanda sem vaxandi var í landbúnaðinum á því kjörtímabili. Þannig er það að mínu mati ekki trúverðugt að hafa þessi mál að hluta til áfram í höndum sömu aðila og enn síður eykur það mér bjartsýni á að þessi samningur verði í höndum núv. ríkisstjórnar landbúnaðinum og neytendum á Íslandi til góðs. Ég greiði ekki atkvæði.