Fjáraukalög 1995

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:51:10 (1617)

1995-12-05 15:51:10# 120. lþ. 53.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:51]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995, breytingartillögum frá fjárln. og breytingartillögum á þskj. 280. frá meiri hluta nefndarinnar.

Á nefndaráliti kemur fram að nefndin hefur haft frv. til meðferðar og leitað skýringa um einstök atriði frá fjmrn. og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum 1995. Einnig hafa komið til fundar við nefndina forsvarsmenn nokkurra ríkisstofnana sem lagt hafa fram upplýsingar um tiltekin verkefni og önnur erindi. Nefndin leitaði enn fremur eftir áliti Ríkisendurskoðunar um frv. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem koma fram í frv.

Geta má þess að nokkur veigamikil atriði bíða enn 3. umr. Þar má m.a. nefna málefni sem varða sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og málefni Sólheima í Grímsnesi svo stærstu atriðin séu nefnd.

Á meðan nefndin hafði frv. til athugunar var unnið að sérstakri skoðun á nokkrum málefnum í ráðuneytunum sem nú hafa verið leidd til lykta auk þess sem önnur ný útgjaldatilefni hafa komið fram.

Meiri hluti fjárln. gerir brtt. við frv. sem samtals nema 424,8 millj. kr. til hækkunar. Einstakar brtt. eru skýrðar í athugasemdum með nefndarálitinu.

Það kemur fram í frv. að viðbótarútgjöld samkvæmt því eru upp á 424,8 millj. kr. til viðbótar við 8,9 milljarða kr. halla á ríkissjóði sem frv. gerði ráð fyrir. Tekjuaukning er upp á 2,3 milljarða kr. en aukning gjalda sem frv. gerir ráð fyrir er upp á 4,9 milljarða plús 424,8 millj. sem nefndin gerir tillögur um breytingar. Það kemur einnig fram að áætlun um flutning heimilda á milli ára er upp á 1,1 milljarð kr.

Það var til umræðu m.a. hjá hv. 12. þm. Reykn., Kristínu Halldórsdóttur, við umræðu um fjáraukalög fyrir árið 1994 að fjárln. stæði oftar en ekki frammi fyrir gerðum hlut varðandi fjáraukalög. Vil ég taka undir þau orð að það kemur fyrir oftar en skyldi að það komi nýjar ákvarðanir ríkisstjórnar á hverjum tíma. Ég hygg að þær ákvarðanir séu bornar undir þingmenn stjórnarflokkanna, en eigi að síður þyrfti fjárln. að fá tækifæri fyrr en raun hefur verið á til að fjalla um þær ákvarðanir. Og þegar fjárln. hefur umboð allt árið, eins og aðrar þingnefndir hafa nú, á ekkert að vera því til fyrirstöðu tæknilega að fjárln. komi saman til að fjalla um nýjar ákvarðanir um ríkisútgjöld sem gerðar eru vegna tilvika sem eru óhjákvæmileg.

Þetta fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir er fyrra fjáraukalagafrv. væntanlega sem lagt er fram fyrir árið 1995 þannig að það felur í sér miklar breytingar á ríkisfjármáladæminu. Með því er halli ríkissjóðs á árinu kominn yfir 9 milljarða kr. þannig að ef þetta frv. undirstrikar einhverjar staðreyndir, þá eru það þær að það þarf að spyrna við fótum og reyna að koma böndum á þá útgjaldaaukningu sem er stöðug í ríkisfjármálunum. Gerð hefur verið grein fyrir þeim atriðum sem eru í frv. sjálfu, það var gert við 1. umr. málsins svo að ég ætla ekki að hafa mörg orð um þau atriði að þessu sinni, heldur gera grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar.

Einstakar breytingartillögur sem meiri hluti fjárln. leggur fram með frv. er á þessa leið:

Í fyrsta lagi er lagt til að fjárheimild Alþingis verði aukin um 31,4 millj. kr. Það eru annars vegar útgjöld sem fylgt hafa í kjölfar kosninga og breytinga á skipan þingsins, 11,4 millj.kr., og hins vegar vegna aðkallandi viðgerða á Alþingishúsinu og framkvæmda við hús Alþingis við Kirkjustræti, samtals 20 millj. kr.

Undir menntmrn. er gerð tillaga um að fjárheimild Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns verði hækkuð um 5,5 millj. kr. vegna hallareksturs áranna 1994 og 1995. Það hafa orðið verulegar breytingar á aðstöðu Landsbókasafns -- Háskólabókasafns sem hafa kallað á aukin rekstrarútgjöld og því er mætt þarna að nokkru leyti.

[16:00]

Undir liðnum Ýmis íþróttamál er lagt til að veitt verði 1,5 millj. kr. viðbótarfjárveiting til Íþróttasambands Íslands til að mæta kostnaði sem fylgdi lántöku sambandsins til að fjármagna viðbyggingu íþróttahallarinnar í Laugardal vegna HM-keppninnar í handknattleik. Hér er um að ræða gjöld sem runnu í ríkissjóð, svo sem lántökugjald, þinggjöld o.fl. Þetta er vegna heimsmeistarakeppninnar í handknattleik sem haldin var á sl. vori.

Undir utanrrn. er lagt til að hækkuð sé fjárheimild alþjóðastofnana um 15,7 millj. kr. vegna Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins og skyldu okkar á þeim vettvangi.

Undir heilbr.- og trn. er gerð tillaga um að 4,2 millj. kr. viðbótarframlag renni til Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað vegna dóms sem fallinn er um greiðslur til starfsmanna sjúkrahússins vegna gæsluvakta. Með greiðslum hefur spítalinn að fullu gert upp við hlutaðeigandi starfsmenn. Gerður er fyrirvari af hálfu ríkissjóðs um endurkröfurétt á sveitarfélagið sem stóð að rekstrinum á þeim tíma sem dómurinn tekur til.

Í öðru lagi er lagt til að veitt verði viðbótarfjárheimild að fjárhæð 15,5 millj. kr. til heilsugæslustöðvarinnar á Reykjalundi vegna rekstrarshalla frá árinu 1991, en heilsugæslustöðin er rekin í tengslum við vinnuheimilið á Reykjalundi og yfir þeim stofnunum er sameiginleg stjórn. Frá því að ríkið tók yfir rekstur heilsugæslustöðva í ársbyrjun 1991 hefur kostnaður við rekstur stöðvarinnar verið umfram fjárveitingar í fjárlögum. Af þeim sökum hefur safnast upp rekstrarhalli og að óbreyttu stefnir í að uppsafnaður halli verði um 18 millj. í árslok 1995. Heilbrrn. og fjmrn. hafa átt í viðræðum um stjórn stofnunarinnar um lausn á þessum vanda og er þá með þessari fjárveitingu gengið út frá að rekstur stöðvarinnar verði í samræmi við fjárveitingu hennar í frv. til fjárlaga 1996.

Eins og ég sagði áðan er undir heilbrrn. frestað til 3. umr. nokkrum veigamiklum málum varðandi beiðnir sem okkur hafa borist vegna reksturs sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu og það má geta þess að einnig eru ófrágengin mál varðandi Sjúkrahús Suðurnesja, en það mál er í skoðun.

Undir fjmrn. er brtt. undir liðnum Launa- og verðlagsmál. Þar er lagt til viðbótarframlag að upphæð 130 millj. kr. vegna launauppbóta í kjölfar kjarasamninga, en í frv. til fjáraukalaga 1995 er farið fram á fjárveitingu vegna launauppbóta í kjölfar kjarasamninga eins og hún var þá metin. Frá þeim tíma hafa verið gerðir samningar við nokkur félög ríkisstarfsmanna og áætlun um launabætur til handa sjúkrahúsum á landsbyggðinni hefur verið endurmetin í ljósi nánari upplýsinga. Niðurstaðan er sú að þörf er á 130 millj. kr. viðbótarframlagi til að mæta öllum launabótum á árinu 1995, og hér er óskað eftir greiðsluheimild á fjárlögum sem því nemur.

Þá er gerð tillaga um 25 millj. kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við björgunaraðgerðir, útfararkostnað, tjón á búnaði og fleiri þátta í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri. Þetta er sá kostnaður sem fyrirsjáanlegur er nú og þykir nauðsynlegt að afla heimilda fyrir. Ekki er víst að öll kurl séu komin til grafar í þessu efni, en þetta er það sem fyrirsjáanlegt er til að mæta þessum kostnaði og öðrum sem þarf að koma til greiðslu á árinu 1995.

Undir samgrn. er gerð tillaga um að veitt verði fjárheimild að fjárhæð 22 millj. kr. til endurbóta á bryggjunni í Holti í Önundarfirði og til að laga skemmdir sem urðu á nokkrum sjóvarnargörðum í óveðri í október sl. en eins og hv. þm. er í fersku minni urðu þar miklar skemmdir á höfnum og sjóvarnargörðum í óveðrinu mikla og lagt er til að því verði mætt.

Auk þess er lagt til að undir liðnum Flugvellir verði veitt fjárheimild að upphæð 10 millj. kr. vegna snjómoksturs, en snjómokstur hefur farið mjög fram úr áætlun á þessu ári og þarf ekki að orðlengja frekar um ástæðurnar fyrir því.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim tillögum sem fjárln. flytur, en þá er eftir að gera grein fyrir brtt. á þskj. 280 sem er frá meiri hluta fjárln. Hún hljóðar upp á greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu upp á 150 millj. kr. Sú greiðsla er vegna búvörusamningsins, afsetningar birgða, sem var verið að samþykkja hér áðan. Þessi tillaga er flutt af meiri hluta fjárln., Jóni Kristjánssyni, Sturlu Böðvarssyni, Árna Johnsen, Árna M. Mathiesen, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Hjálmari Jónssyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Kristni H. Gunnarssyni og Bryndísi Hlöðversdóttur.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem fylgja þessu frv. að þessu sinni. Það eru nokkur atriði sem standa út af enn þá og verða þá tekin fyrir við 3. umr. málsins ásamt þeim erindum sem okkur kunna að berast. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þýða þessar tillögur viðbótarútgjöld upp á 424,8 millj. kr. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna, en ég mun auðvitað taka þátt í þessum umræðum og svara því sem til mín hefur verið beint.

Ég vil áður en ég lýk máli mínu þakka fjárln. fyrir góða samvinnu við afgreiðslu á þessum tveimur fjáraukalagafrv. það sem af er. Þó þeirri afgreiðslu sé ekki lokið þá hefur sú vinna verið mjög góð og málefnaleg. Ég vil benda á það sérstaklega að við höfum fengið um þessi frumvörp sem hér eru til umræðu bæði umsögn frá Ríkisendurskoðun. Ég tel að það sé til mikilla bóta að fá slíka umsögn og það hjálpi nefndinni til að glöggva sig á veigamiklum atriðum varðandi afgreiðslu mála. Ég vil skírskota til þess að hlutverk Ríkisendurskoðunar er m.a. að aðstoða þingnefndir, ekki síst fjárln. og það er mjög mikils virði að nýta sér þá aðstoð sem best.