Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:34:01 (1621)

1995-12-06 13:34:01# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:34]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. viðskrh. um rekstrarskilyrði smáfyrirtækja. Miklar vonir eru og hafa verið bundnar við jákvæð áhrif á efnahagslíf Íslendinga með virkjun fallvatna og fjárfestingu í stóriðju og þar er sannarlega mikið að gerast. Nægir þar að benda á nýgerða samninga við Alusuisse um stækkun álvers í Straumsvík, viðræður við Columbia Aluminium, umræður um magnesíumverksmiðju á Reykjanesi, stækkun Grundartanga og þannig má áfram telja. Allt eru þetta hinar jákvæðustu fréttir og sýna að sú kyrrstaða sem hefur verið í fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi hefur nú verið rofin. En það sem þó e.t.v. skiptir mestu máli er að þetta eykur bjartsýni og kjark þjóðarinnar varðandi efnahagsmál og atvinnulíf.

Því er þó ekki að leyna að minna hefur veri fjallað um vaxtarmöguleika smærri fyrirtækja og stöðu þeirra innan atvinnulífsins. Í nýlegri skýrslu OECD er bent á sem leið út úr efnahagslægð að skapa smærri fyrirtækjum vænlegt rekstrarumhverfi þannig að nýsköpun verði aukin með hvatningu til einstaklinga um að hefja rekstur fyrirtækja. Þessa leið hafa fjölmargar þjóðir farið, m.a. Bandaríkjamenn, Kanadamenn og fleiri á leið sinni út úr efnahagslægð síðari ára með jákvæðum árangri.

Oft er bent á verðmæti vel menntaðrar þjóðar. Þau verðmæti felast ekki síst á möguleikum einstaklinga til að virkja menntun sína og þekkingu í atvinnulífi. Má í því sambandi benda á nýja skilgreiningu OECD á ríkidæmi þjóðar þar sem er lögð meiri áhersla á menntunarstig hennar.

Hér á landi hafa margir einstaklingar náð góðum árangri á þessu sviði. Má þar t.d. nefna undraverðan árangur fyrirtækja í hugbúnaðargerð, ferðaþjónustu, þjónustu í sjávarútvegi og þannig má áfram telja. Þrátt fyrir árangur nokkurra fyrirtækja hefur öðrum gengið miður vel. Bent hefur verið á að rekstrarskilyrði íslenskra smáfyrirtækja séu um margt óheppileg og til þess fallin að kæfa fremur en örva. Gerist það m.a. með því að þeim er gert erfitt um vik með að taka fjárhagslega áhættu í nýsköpun. Fjölmörg reglugerðarákvæði skapi þunglamalega skriffinnsku o.s.frv. Því beini ég þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvort eitthvað sé unnið að því á hans vegum að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi.