Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:40:56 (1623)

1995-12-06 13:40:56# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:40]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. hans svör og lýsa ánægju með það sem þegar hefur verið gert. Ekki síður vil ég skilja svör ráðherra þannig að innan skamms megi búast við frekari tillögum og ekki síst aðgerðum sem stuðli að bættum rekstrarskilyrðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er einmitt vert að undirstrika það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan að langflest fyrirtæki á Íslandi falla undir þann stærðarflokk. Því hlýtur það að teljast rökrétt að hlúa þannig að smærri fyrirtækjum að þau megi vaxa og dafna.

Ég fagna því þessum hugmyndum ráðherra, en minni jafnframt á mikilvægi þáttar nýsköpunar og áhættu. Þann þátt verður að virkja því að þar liggja sóknarfærin. Þar liggja möguleikar einstaklinga til athafna og framfara. Til þess þurfa líka ytri skilyrði af hálfu hins opinbera að vera hvetjandi. Ég skil svör ráðherra svo að að því sé stefnt og því ber að fagna. Meginatriðið er að skapa litlum og meðalstórum fyrirtækjum þau skilyrði að vöxtur efnahagslífs verði ekki síður á þeirra sviði heldur en í stóriðju.