Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:43:35 (1625)

1995-12-06 13:43:35# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er ýmislegt sem hvílir á litlum fyrirtækjum á Íslandi. Eins og síðasti hv. þm. gat um er það eftirlitsiðnaðurinn, sem menn segja að skilji eftir sig sviðna slóð. Svo er það skortur á þjónustulund opinberra aðila við litlu fyrirtækin. Það er líka skortur á upplýsingum um það hvernig menn eiga að bregðast við og hegða sér í þessu reglugerðaverki öllu saman, upplýsingar til lítilla fyrirtækja. Og síðast en ekki síst er það þessi skattur á nýsköpun sem er í gildi í dag. Það kostar 110 þús. kr. að stofna fyrirtæki og það stendur ekki til að lækka það neitt umtalsvert. Og spurning mín til ráðherra er sú: Er meiningin að breyta þessari skattlagningu á nýsköpun jafnvel þannig að það standi eitthvað undir sér, verði ekki skattur heldur bara gjöld fyrir rekstur Hlutafélagaskrár? Og er meiningin að veita meiri upplýsingar til þeirra sem eru að stofna fyrirtæki?