Nýting og útflutningur á jarðefnum

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:59:30 (1630)

1995-12-06 13:59:30# 120. lþ. 54.2 fundur 183. mál: #A nýting og útflutningur á jarðefnum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:59]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Um leið og ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir málið vil ég taka undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi áðan. Hér er hreyft verulegu vandamáli. Það nægir að vísa til úttektar ágæts fjölmiðlamanns, Ómars Ragnarssonar, þar sem hann lýsti ágætlega sviðinni jörð sem námur víða um landið skilja eftir sem og úttektar Náttúruverndarráðs sem hv. málshefjandi vitnaði til.

Það segir okkur einfaldlega að hér ríkir algert skipulagsleysi svo að ég noti ekki orðið villimennska. Þegar veitt eru leyfi til námavinnslu er ekki nóg að hafa iðnað í huga, eins og ráðherra svaraði, heldur þarf að skoða aðrar atvinnugreinar. Vil ég nefna þar sérstaklega ferðaþjónustu sem er að verða ein af öflugri atvinnugreinum á Íslandi. Það má nokkuð ljóst vera að ferðamenn koma ekki hingað til þess að skoða tóftir og sviðna jörð eftir námavinnslu. Hér þarf að fara fram stefnumótun sem snertir ekki einungis iðnrn. heldur og ekki síður umhvrn. og ráðuneyti ferðamála.