Nýting og útflutningur á jarðefnum

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:00:48 (1631)

1995-12-06 14:00:48# 120. lþ. 54.2 fundur 183. mál: #A nýting og útflutningur á jarðefnum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi StB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[14:00]

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir mjög greinargóð svör við þeim fyrirspurnum sem ég bar upp og ég tel að þar hafi komið fram mjög mikilvægar upplýsingar sem segja okkur að þarna þurfi að gæta að. Það verði að setja skýrari og strangari reglur hvað varðar umgengni um þessi svæði þar sem vikurvinnsla fer fram og einnig huga að því með hvaða hætti megi nýta þetta sem best.

Hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það svo að það þyrfti að líta á hina hliðina, þ.e. ekki þá sem varðar vikurvinnslu eða vikurútflutning sem atvinnugrein, heldur frá náttúruverndarsjónarmiðinu. Ég taldi mig gera það þegar ég mælti fyrir fyrirspurninni og vitnaði til þeirrar úttektar sem Náttúruverndarráð hefur gert þar sem vakin er athygli á því að það hefur ekki verið gengið eðlilega um náttúruna hvað þetta varðar. En ég vil undirstrika það að ég tel að þeir aðilar sem hafa verið að vinna að vikurútflutningi og vikurvinnslu hafi lagt sig fram um það sérstaklega að ganga bærilega um, en engu að síður tel ég að þar megi betur gera og læra af þeirri reynslu sem við höfum fyrir.

Vegna svars hæstv. iðnrh. vil ég segja að ég tel að það eigi ekki að setja neinar sérstakar skorður sem stangist á við EES-reglur, fjarri því. Við eigum að reyna að nýta þessa auðlind eins vel og við getum og setja fyrst og fremst skorður hvað varðar umgengnina og reglur um nýtingu á landinu. Síðan mega auðvitað allir flytja út eins mikið og þeir geta og skapa verðmæti svo framarlega sem ekki er gengið á auðlindina eða henni spillt.

Þetta vildi ég að kæmi fram í þessari umræðu. Að öðru leyti þakka ég fyrir svör hæstv. ráðherra. Ég tel að þau segi okkur að það þarf að setja skýrari og klárari reglur, en engu að síður vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa þó sett reglugerð. En ég tel að hún sé vanbúin og þurfi að vera ítarlegri og skýrari og hafa möguleika á að takmarka aðkomuna og nýtinguna með einhverjum hætti. Ég tel að það sé ekki fullnægjandi að einn ráðgjafarverkfræðingur hafi eftirlit með þessari námavinnslu. Sveitarfélögin verða að fá þarna ábyrgð og skyldu til eftirlits.