Nýting og útflutningur á jarðefnum

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:03:57 (1632)

1995-12-06 14:03:57# 120. lþ. 54.2 fundur 183. mál: #A nýting og útflutningur á jarðefnum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[14:03]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að menn þurfa auðvitað að horfa á allar hliðar málsins í þessum efnum. Ég hef viljað takmarka þennan útflutning. Það er hins vegar annmörkum háð eins og ég gat um í svari mínu áðan. Fyrst og fremst hef ég áhuga á að takmarka útflutninginn vegna þess að ég tel að okkur bjóðist innan tíðar aðrir betri kostir til nýtingar á þessum vikri þannig að hann skapi meiri verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú en hann gerir í dag. Ef við tökum Heklusvæðið sem dæmi mundum við með sama magni og flutt var út árið 1994 flytja allan Hekluvikurinn út á 30 árum. Þarna er ekki um endurnýjanlega auðlind að ræða og þá sjá menn hversu gríðarlegir hagsmunir eru þarna í húfi. (SvG: Það þyrfti að fjölga eldgosum.) Já, fjölga eldgosum, það er hárrétt hjá hv. þm., því miður gerist þetta ekki öðruvísi. Áður en menn fá leyfi til þess að flytja út eða fá svokallað vinnsluleyfi, þarf að fara fram umhverfismat svo framarlega sem um er að ræða magn sem er yfir 150 þúsund rúmmetrar. Það er auðvitað framfaraspor. En ég legg áherslu á að eftirlitið skiptir líka höfuðmáli þarna.

Þegar ég kom að þessu í byrjun sumars var mjög slæm nýting á vikursvæðunum austur við Heklu, sennilega 50--60% nýtingu á svæðum þar sem menn gátu nýtt þetta allt upp í 90%. Reglugerðin gengur út frá því að menn nýti þetta 90% og ráðgjafarverkfræðingurinn sem þarna hefur verið ráðinn, hefur einvörðungu verið ráðinn til þess að fylgjast með þessu svæði, þessum þremur stöðum í kringum Þjórsá og í kringum Búrfell.

Ábyrgð sveitarfélaganna er líka nokkur í þessu, enda fá þau hluta af námugjaldinu einmitt til þess að fylgjast með því hvernig um er gengið. En aðalatriðið tel ég vera þetta. Við eigum að reyna að takmarka þennan útflutning. Það er ekki hægt með því að takmarka magnið inn á Evrópumarkaðinn. Það er hins vegar hægt með því að takmarka leyfin sem eru veitt. Síðan ég tók við í vor sem iðnrh. hefur ekkert leyfi verið gefið út og ég hef sagt að ég hafi ekki í hyggju að gefa út neitt viðbótarleyfi einfaldlega vegna þess að ég tel það mjög mikilvægt að taka þennan málaflokk í heild sinni til endurskoðunar, þegar gildandi leyfi renna flestöll út 1. október 1998.