Málefni samkynhneigðra

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:24:05 (1639)

1995-12-06 14:24:05# 120. lþ. 54.4 fundur 196. mál: #A málefni samkynhneigðra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[14:24]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka dómsmrh. fyrir sitt stutta svar sem var ákaflega gott og tek undir spurningar hv. 11. þm. Reykv. og vil lýsa þeirri skoðun minni að þetta þurfi að koma fram. Það væri fróðlegt að heyra ef dómsmrh. getur gefið upplýsingar um hvort þar er fylgt þeim tillögum sem nefndar eru í skýrslunni og þá hvort eitthvert tillit er tekið til minnihlutaálits í skýrslunni frá þeim sem voru fulltrúar samkynhneigðra.

Ég vil svo segja að menn kunna að halda að hér sé um einhvers konar ,,abstrakt`` mannréttindabaráttu að ræða, en svo er ekki. Ýmislegt er beinlínis brýnt og knýjandi. Ég veit t.d. til þess að samkynhneigt sambúðarfólk þar sem annar hefur orðið alvarlega veikur eða önnur og hinn hefur viljað annast sambýlismann sinn, eða konu í þessu tilviki, á í alvarlegum vandræðum, því hefur verið synjað um svokallaðar makabætur eða umönnunarbætur sem veittar eru úr almannatryggingum til maka. Um þetta eru dæmi og það eru dæmi um alvarlega sjúkdóma, bæði krabbamein og alnæmi og því fyrr sem þingið ber gæfu til að setja lög um þessi efni og bæta úr misrétti, þeim mun betra.