Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:54:26 (1644)

1995-12-06 14:54:26# 120. lþ. 55.4 fundur 163. mál: #A stjórnarskipunarlög# (kosning forseta) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[14:54]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri þá athugasemd við ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að hann sagði að forsetaembættið væri þannig að í því fælist ekki pólitískt vald og þess vegna væri ekki skynsamlegt að breyta því mikið. Nú hljótum við að benda á að í aðdraganda forsetakosninganna sem fram fara næsta sumar eða vor, hafa einmitt hafist miklar umræður um hvaða pólitískt vald forsetaembættið geti í sér falið. Lærðir spekingar hafa haldið því fram að þó að forsetar hingað til hafi ekki tekið sér mikið pólitískt vald þá geti þeir það og ýmsar formúlur hafa verið settar upp um það hvernig það væri hægt. Það gerði m.a. fyrrv. formaður flokksins sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tilheyrir og lýsti því, þó það væru kannski ýkjur, þegar de Gaulle komst til valda í Frakklandi og braut út af fyrir sig ekki neinar beinar lýðræðisreglur. Nú gerum við ekki ráð fyrir því að yfir okkur svífi fallhlífasveitarhermenn eins og í París árið 1956 eða 1958 eða hvenær það var nú. En það er augljóst af orðum fyrrv. formanns Alþb. sem ég treysti ákaflega vel í stjórnspekilegum efnum að þetta er hægt. Þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt að það skapist umræða nú, hvort sem hún er ,,akademísk`` eða --- ég veit ekki nú ekki hvert hitt lýsingarorðið á að vera --- um að það verði tryggt að ef að forseti býst til að taka að sér þetta pólitíska vald og lýsir því þá væntanlega yfir í kosningabaráttunni, þá sé hann tryggilega kosinn af meiri hluta þjóðarinnar.