Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 14:57:43 (1646)

1995-12-06 14:57:43# 120. lþ. 55.4 fundur 163. mál: #A stjórnarskipunarlög# (kosning forseta) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[14:57]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Í sambandi við það mál sem hér er til umræðu, frumvarp til stjórnarskipunarlaga, langar mig til að gera örfáar athugasemdir.

Í fyrsta lagi er það frumvarp sem liggur nú fyrir byggt á því að kjörinn forseti styðjist við meira en helming greiddra atkvæða. Ekki helming atkvæðisbærra manna. Þannig að mér fannst að athugasemdir sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni byggðust kannski ekki að öllu leyti á því máli sem hér er til umfjöllunar. Mér finnst einnig að gagnrýni sem hefur komið fram á þetta mál og byggist á því að það sé illa rökstutt, sé ekki rétt heldur. Málið eins og það liggur fyrir er rökstutt með fyllilega frambærilegum og gildum rökum burt séð frá reynslunni. Auðvitað getur reynslan ekki gefið einhlíta forsögn um það hvernig eigi að vega og meta hvernig okkar stjórnarskipunarlög eru úr garði gerð. Það hljóta einnig að koma til rök og mér finnst að þau rök sem hér eru sett fram séu fyllilega frambærileg þó ég geri kannski að vísu smávægilega athugasemd við þá fullyrðingu að lýðræðið byggist á þeirri meginreglu að meginhluti þegnanna fari með valdið. Fulltrúalýðræði er nú einu sinni þannig að þeir sem fara með valdið eru ekki meiri hluti þegnanna heldur hafa þeir á bak við sig stuðning meiri hluta þegnanna. Þetta er að sjálfsögðu það sem flm. eiga við með þessari setningu sinni þannig að það kannski skiptir ekki öllu máli. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli að ekki séu þeir meinbugir á okkar stjórnarskrá að upp geti komið sú staða eins og flutningsmenn benda réttilega á að kjörinn verði forseti með mjög takmörkuðu almennu fylgi. Um það fjallar þetta mál og mér finnst að það eigi sem slíkt fullan rétt á sér hér, þótt ég taki undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem kom áðan með þá athugasemd að ekki væri líklegt að það yrðu kosningar til Alþingis á þessu ári. Að vísu standa mál þannig að ríkisstjórnin og þá sérstaklega Sjálfstfl. hefur mikinn byr þannig að ekki hamlar það því að gengið verði til kosninga. Það sem hamlar hins vegar er að innan Sjálfstfl. a.m.k. og ég held líka að það sjónarmið njóti skilnings í Framsfl., er mjög sterk hefð fyrir því að vinna út kjörtímabilið og ég hygg að því sjónarmiði muni ekki verða breytt að þessu sinni. Þar af leiðandi væri frá praktísku sjónarmiði skynsamlegra að bera þetta mál upp í lok kjörtímabilsins heldur en í upphafi þess.

Ég vil endurtaka það, virðulegi forseti, að mér finnst að þetta mál sé sett fram með fullkomlega haldbærum og gildum rökum og með fullkomlega viðunandi hætti.