Tilkynningarskylda olíuskipa

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:08:05 (1649)

1995-12-06 15:08:05# 120. lþ. 55.6 fundur 190. mál: #A tilkynningarskylda olíuskipa# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:08]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 238 er till. til þál. um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Auk mín er meðflm. Guðjón Guðmundsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu, m.a. heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi. Enn fremur verði sett skýr ákvæði er banna öllum skipum losun á ,,ballest`` nema í ákveðinni, tiltekinni fjarlægð frá landi (eða á ákveðnu dýpi).

Jafnframt verði mótaðar reglur um hvaða ráðuneyti og stjórnsýslustofnanir fari með forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til þegar mengunarslys verða á sjó eða við strendur landsins.``

Í greinargerð segir m.a. svo:

,,Með lögum nr. 14/1979 var ríkisstjórninni veitt heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu. Þeir samningar mæla annars vegar fyrir um íhlutun strandríkis á úthafinu þegar óhöpp verða sem valda eða geta valdið olíumengun og hins vegar um ábyrgð á tjóni af völdum olíumengunar. Þá eru einnig í gildi lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Framangreind lög og samningar veita strandríkjum þó ekki rétt til að gera neinar ráðstafanir er takmarkað geta umferð olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning um efnahagslögsögu þeirra.

Með hliðsjón af undirstöðuatvinnuvegi Íslendinga og megintekjum af erlendum viðskiptum, sem m.a. byggjast á einstökum ómenguðum náttúruauðlindum hafsins umhverfis Ísland, er um brýnt mál að ræða. Fjölmörg strandríki hafa sett reglur um losun á ,,ballest`` til að koma í veg fyrir mengun sjávar og vernda lífríkið. Mikið er í húfi fyrir Íslendinga í þessum efnum eins og áður segir og rétt að hafa í huga að mistök í þessum efnum geta vissulega valdið miklum skaða í laxveiðiám. Alvarleg mengunarslys hér á landi hafa sem betur fer ekki orðið. Full ástæða er þó til ýtrustu varkárni í því efni, samanber strand danska flutningaskipsins Erik Boye hér við land í júlí 1992 og flutningaskipsins Carvik frá Kípur í september 1994.``

Herra forseti. Í greinargerð með þessari þál. er síðan rakinn aðdragandi að strandi flutningaskipsins Erik Boye og hvernig að þeirri björgun var staðið og jafnframt fjallað um strand flutningaskipsins Carvik sem strandaði í september 1994. Þá er rakið í greinargerð það alvarlega mengunarslys sem var við Hjaltland í janúar 1993 þegar stórt olíuflutningaskip, Braer, strandaði þar og olli geysilegu tjóni á lífríki hafsins þar í kring.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara yfir þá greinargerð alla. Hún er nokkuð löng og mjög ítarleg. Ég legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og til hv. samgn.