Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:40:12 (1654)

1995-12-06 15:40:12# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:40]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Einu skiptir hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna er skoðaður sem sagnfræði, samtímavandamál eða framtíðarvandamál. Ljóst er að þar er um vandamál að ræða. Ég hygg að flestir flokkar hafi lagt í síðustu kosningabaráttu með áherslu á málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það hefur og komið fram eftir myndun ríkisstjórnar, að á verkefnaskrá hennar er endurskoðun laga um lánasjóðinn. Það kom og fram í máli hæstv. menntmrh. að skipuð hefur verið nefnd til að vinna í því máli. Þar sem hv. málshefjandi rukkaði framsóknarmenn um afstöðu, þá lá hún ljós fyrir í kosningabaráttunni og fulltrúar Framsfl. fara í þá nefnd undir þeim formerkjum að sjálfsögðu. Ég get nefnt nokkur af þeim atriðum sem rædd eru í nefndinni.

Það er í fyrsta lagi um námsframvindu. Fram hefur komið sú eðlilega gagnrýni að krafa sjóðsins sé ekki í takt við kröfu ýmissa skóla. Við erum að fjalla um endurgreiðsluhlutfall. Ég minni á fréttir frá stúdentum þar sem fram kemur að meðalstúdent sem lýkur langskólanámi og hyggst síðan koma yfir sig húsaskjóli, þarf að hafa 500--600 þús. kr. á mánuði til að komast inn í húsnæðiskerfið. Það er augljóst vandamál, það erum við að ræða í nefndinni. Við erum að ræða um eftirágreiðslur eða samtímagreiðslur sem hefur verið mjög harðlega gagnrýnt og flestir flokkar tóku til umræðu í kosningabaráttunni. Menn eru að ræða um framfærslugrunninn. Hver er grunnurinn? Hver er eðlilegur framfærslugrunnur? Menn eru að velta upp ýmsum nýjum hugmyndum svo sem um styrkjakerfið og áfram má telja. Meginatriðið er það að málið er í vinnslu. Lögin eru til endurskoðunar undir þeim formerkjum sem er meginhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna, þ.e. að jafna aðstöðu fólks til náms.