Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:44:36 (1656)

1995-12-06 15:44:36# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Alþýðuflokksmenn hefðu betur séð að sér fyrr en nú. Ég hygg að sú ákvörðun að breyta lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna vorið 1992 að undangenginni mikilli og harðri umræðu hafi verið eitthvað það versta sem ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. skildi eftir sig. Það er engin sagnfræði heldur blákaldur veruleiki sem blasir við okkur í dag. Námsmönnum sem taka námslán hefur fækkað verulega og í þeim hópi eru konur fjölmennastar. Einnig hefur barnafólki fækkað áberandi. Maður spyr sig auðvitað: Hver er ástæðan og hvernig fara námsmenn að því að fjármagna nám sitt? Ég hlýt að skora á hæstv. menntmrh. að láta kanna það hvernig námsmenn almennt fjármagna nám sitt núna og hvaða ástæða er fyrir því að þeir taka ekki námslán. Auðvitað vitum við hver ástæðan er. Það þarf að borga þau. Og konur sem eru í námi eins og t.d. hjúkrunarfræði, eða stefna að kennslu og öðrum hefðbundnum störfum sem konur eru almennt í, vita að þær geta einfaldlega ekki borgað þessi lán. Þetta er hinn blákaldi veruleiki. En það þarf að kanna hvað liggur þarna að baki og hvað það kostar Háskóla Íslands þegar námsmenn eru mun lengur í námi vegna þess að þeir taka ekki námslán. Þess eru mörg dæmi og ég þekki allmörg dæmi þess að háskólanemar eru að vinna með náminu því það er auðvitað sú eina leið sem þeim er fær. Lánasjóður íslenskra námsmanna var fyrir breytingarnar árið 1992 eitthvert mesta jafnréttistæki okkar samfélags. Það breyttist með þessum lagabreytingum eins og tölur þær sem hér hafa verið raktar sýna. Breytingarnar bitna fyrst og fremst á konum. Það verður að breyta þessu. Ég vil líka benda á þá staðreynd að námsmönnum í námi erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, hefur fækkað stórlega. Hvaða skýring heldur hæstv. menntmrh. að sé á því? Auðvitað engin önnur en þessar breytingar á lánasjóðnum sem því miður kosta ungt fólk m.a. það að geta ekki stundað nám erlendis.