Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:47:10 (1657)

1995-12-06 15:47:10# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Satt að segja hef ég oft á undanförnum árum hlustað á hæstv. menntmrh. íhaldsins, fyrst í skjóli krata og svo framsóknar, svara fyrirspurnum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég hef hins vegar aldrei heyrt annan eins tilfinningakulda og mér liggur við að segja fyrirlitningu gagnvart högum lifandi fólks, eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. áðan, vegna þess að hann sagði: Við ætlum að ekkert að gera í þessu máli. Vandinn er sagnfræði. Það er alveg bersýnilegt að efna þarf til frekari umræðna um málið í þessari virðulegu stofnun, til að knýja á um lausn þess, því að þessi nálgun hæstv. núv. menntmrh. er afhjúpun á því hvernig Sjálfstfl. vill taka á málum af þessu tagi og í hvaða hættu veikgeðja miðjuflokkar eru sem beygja sig fyrir vendi íhaldsins þegar því þóknast að reiða hann upp.

Veruleikinn blasir við, hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt líka að rifja það upp að einmitt þessir veikgeðja miðjuflokkar notuðu á síðasta kjörtímabili, þ.e. Alþfl., yfirlýsingarnar um hugsanlegt gjaldþrot Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem viðspyrnu í þessu máli. En núna hefur Ríkisendurskoðun staðfest að Lánasjóður íslenskra námsmanna var einhver sterkasti sjóður sem um getur á vegum ríkisins og að hagur hans batnaði ekki í tíð síðustu stjórnar heldur versnaði þrátt fyrir það hvernig þeir héldu á þessum málum. Þetta eru veruleikinn. Gjaldþrotið var þeim skálkaskjól til að ráðast gegn kjörum íslenskra námsmanna.

Þess vegna verður að halda umræðunni hér áfram, hæstv. forseti. Það er auðvitað mjög alvarlegt að hundruð ef ekki þúsundir manna, karla og kvenna, hafa horfið frá námi eða hætt við nám. Og hvað þýðir það? Það þýðir verri lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni. Framsfl. ætti núna, með leyfi forseta, að skammast til að rifja upp eitthvað af ræðunum sem hann flutti hér á síðasta kjörtímabili.