Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 10:38:50 (1663)

1995-12-07 10:38:50# 120. lþ. 56.2 fundur 205. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (breyting grunngjalda, áfengisinnflutningur o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[10:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. lög nr. 1/1992 og lög nr. 50/1994. Þetta frv. er að finna á þskj. 266 og er 205. mál þingsins.

Frv. er í sex greinum og má vísa til athugasemdanna við lagafrv. Þar koma fram allar upplýsingar um það. Ég mun þó í örfáum orðum gera grein fyrir efni frv. og jafnframt vekja athygli á einni villu sem er í frv. en ég bið hv. nefnd, efh.- og viðskn., að taka hana sérstaklega til athugunar og leiðrétta hana fyrst þskj. var ekki prentað upp.

Þetta frv. fjallar um örfáar breytingar á aukatekjum ríkissjóðs, en á sínum tíma voru þær lögboðnar. Enda hafði komið fram athugasemd, ef ég man rétt, frá umboðsmanni Alþingis um að í raun væri um gjaldheimtu eða skattheimtu að ræða fremur en þjónustugjöld þar sem gjöldin voru oft og tíðum talsvert hærri en hægt var að sýna fram á að þjónustan við ýmsa skráningu kostaði í raun.

Í 1. gr. frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á 11. gr. laganna, en í því ákvæði er að finna gjöld fyrir leyfi til atvinnustarfsemi og tengd leyfi. Það er viðskrn. sem hefur lagt til að í stað 7. tölul. komi þrír töluliðir og snerta þeir fyrst og fremst vátryggingarmiðlunarstarfsemi. Lagt er til að gjald fyrir leyfi til vátryggingarmiðlunar verði 75 þús. kr. og þar sem leyfi til verðbréfamiðlunar þykir eðlislíkt leyfi er lagt til að gjald fyrir slíkt leyfi verði hækkað úr 50 þús. í 75 þús. kr.

Þá er í 1. gr. gert ráð fyrir ýmsum leyfisveitingum sem snerta áfengislög, en talsverð breyting verður á skipan áfengisverslunar með lögum sem samþykkt voru fyrr á þessu ári og tóku gildi í tvennu lagi, síðari hlutinn 1. desember sl. Hér er lagt til að bætt verði inn ákvæðum um gjald fyrir áfengisinnflutningsleyfi sem verði 15 þús. kr. og áfengisheildsöluleyfi sem verður 30 þús. kr. Í áfengisinnflutningsleyfinu felst eingöngu heimild til innflutnings til eigin nota í atvinnuskyni, svo sem fyrir veitingahús sem geta þá haft áfengisinnflutningsleyfi og flutt þannig beint inn fyrir sinn rekstur.

Í áfengisheildsöluleyfi felst auk leyfis til innflutnings heimild til að selja áfengi til þeirra sem stunda smásölu, en það eru annaðhvort vínveitingahús eða Áfengis- og tóbaksverslunin sem hefur einkaleyfi á smásöluverslun til almennings.

Þá er einnig gert ráð fyrir eftirlitsgjaldi sem innheimt verður árlega af framleiðendum, innflytjendum og áfengisheildsölum. Ráðgert er að það verði 5 þús. kr. en það á stoð í lögum sem ég gat um áðan. Gert er ráð fyrir að þetta gjald standi undir kostnaði við eftirlit með þessari starfsemi.

Í 2. gr. er að tillögu viðskrn. lagðar til breytingar á 13. gr. laganna, en þar er um að ræða að gjald fyrir skráningu samvinnufélaga og hlutafélaga verði hækkað úr 100 þús. í 150 þús., en jafnframt er lagt til að gjald fyrir skráningu einkahlutafélags verði lækkað úr 100 í 75 þús. Ég vil beina því til hv. nefndar sem fær þetta frv. til meðferðar að líta á upphæðir sem nefndar eru í þessu frv. og kannski einkum og sér í lagi 2. gr. frv. með tilliti til samræmingar fyrst og fremst.

Þá kem ég að 3. gr. frv. en í þeirri grein er villa. Þar er um að ræða afgreiðslugjald skipa, en að tillögu samgrn. eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna vegna breyttra reglna um mælingar skipa sem tóku gildi 18. júlí 1994 og fela í sér að mælingar skipa verða miðaðar við brúttótonn, stendur hér í greinargerð. Er vegna samræmis lagt til að gjaldtakan miðist við brúttótonn í stað nettórúmlesta. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að þessar mælieiningar hafa nokkuð vafist fyrir þeim sem hafa undirbúið lagafrumvörp og fjallað um þessi hugtök á hinu háa Alþingi. Þess vegna m.a. hygg ég að slæðst hafi inn villa í þetta frv. en samkvæmt tillögu samgrn. og nýjustu upplýsingum á þetta að vera nettótonn en ekki brúttótonn. Ég vil biðja nefndina sérstaklega um að líta á 3. gr. þannig að það verði ekki slys í lagasetningu hvað þetta snertir. Ekki svo að skilja að það skapaði gífurleg vandræði, hér er ekki um þær fjárhæðir að ræða. En rétt skal vera rétt og þar sem ekki gafst tækifæri til þess að prenta upp frv. vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til nefndarinnar að hún leiðrétti 3. gr. og mun ég gera ráðstafanir til þess að fulltrúar samgrn. komi því efni til skila til nefndarinnar.

[10:45]

Í 5. gr. frv. er felld niður heimild fjmrh. til að hækka grunngjöld í þessum lögum almennt um aukatekjur ríkissjóðs í samræmi við breytingar á vísitölu vöru og þjónustu. Þetta er breyting sem er gerð í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að afnema sjálfvirkni, en þess skal getið að engar fjárhæðir hafa í raun hækkað í fimm ár. Það er eðlilegt að sjálfvirkni verði ekki í þessum lögum frekar en öðrum og þess vegna er lagt til í 5. gr. að 19. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs falli brott.

6. gr. er síðan gildistökugrein sem ekki þarfnast skýringar, en ráðgert er eins og kemur fram í greininni, 2. mgr., að breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum verði felldar inn í lögin og þau svo gefin út að nýju, enda er það til hagræðis fyrir þá fjölmörgu sem þurfa að eiga greiðan aðgang og ljósan að lögum sem þessum.

Að lokum, virðulegi forseti, leyfi ég mér að gera þá tillögu að frv. verði vísað ti 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.