Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 13:36:46 (1678)

1995-12-07 13:36:46# 120. lþ. 57.2 fundur 207. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (fasteignaskattur, þjónustuframlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[13:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um frumvarpið né fara efnislega í greinar þess. Það snýr fyrst og fremst að því að koma tveimur áríðandi málum í ákveðinn farveg. Þau eru um breytingu á þessum sérstaka skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem samstaða var um að færi til sveitarfélaganna og þau settu í nýjan farveg og að breyta hlutverki þjónustuframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hér er lagt til að breyta og hækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði á fjórum árum og settir fram útreikningar á hvernig það komi út. Að sjálfsögðu munum við í félmn. fara mjög vel í gegnum þau ákvæði sem hér eru sett fram og skoða hvort sátt er um þau. En ég vil geta þess að t.d. varðandi breytt hlutverk þjónustuframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, er þar eitt sem er mjög mikilvægt að lagfæra. Það eru hin skörpu skil sem hafa verið á þjónustuframlögunum þegar þau eru miðuð við tiltekinn íbúafjölda. Þetta hefur skapað erfiðleika á stundum og hér er lagt til að því verði breytt.

Ég hef það á tilfinningunni að ekki verði erfitt fyrir félmn. að fara yfir þetta mál og ljúka því og mun ég með opnum huga fara í þessa vinnu.