Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 14:33:13 (1683)

1995-12-07 14:33:13# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[14:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta sem fyrri ræðumaður talaði um, afföllin af 15, 25 og 40 ára húsbréfum, er það spurningin um mat manna á þróun vaxta næstu 30, 40--50 árin, sem sagt hvort menn trúa að vextir muni lækka eða hækka á þeim tíma, hvort afföllin verða meiri eða minni á þessum bréfum. Ef lífeyrissjóðir hafa þá trú að við séum núna á sérstöku hávaxtaskeiði, sem við reyndar erum, og búast við því að vextir haldist ekki svona háir lengi, þ.e. 5%, svona lengi, kaupa þeir frekar 40 ára bréf en 25 ára bréf til að negla inni ávöxtunina þennan tíma. Lífeyrissjóðir eru reiknaðir út með 3,5% ávöxtunarkröfu þegar þeir eru gerðir upp og það skiptir þá verulegu máli að negla þessa ávöxtun inni í langan tíma. Þetta getur valdið því að ávöxtunarkrafan fyrir lengri bréf verði lægri en fyrir styttri bréf af því að menn negla ávöxtunina lengur inni.

Á síðu 3 í greinargerð með frv. er talað um að afföllin fyrir 15 ára bréf með 6,25% ávöxtunarkröfu séu nánast þau sömu og á húsbréfum til 25 ára með 5,75% ávöxtunarkröfu, þ.e. með 0,5 % lægri ávöxtunarkröfu. Sömuleiðis ef ávöxtunarkrafa 40 ára bréfs er 5,5%. Það þarf ekki nema 0,25% lækkun ávöxtunarkröfu þannig að afföllin séu þau sömu af 25 ára bréfi og 40 ára bréfi. Ef lífeyrissjóðirnir ætla sér að negla enn frekar inn þessa ávöxtun og ásókn í 40 ára bréfin verður meiri, þá getur þessi munur orðið þannig að það verði minni afföll af 40 ára bréfum en 25 ára. Og mér segir svo hugur að almenningur muni frekar velja 15 ára bréf en 25 ára bréf og það verði mjög fáir sem velji 40 ára bréf í húsbréfum. Ég geri ekki ráð fyrir að margir vilji vera að borga af íbúðinni sinni frá fertugu til áttræðs.