Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:21:02 (1687)

1995-12-07 15:21:02# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er lítillátur maður og hef nú enga minnimáttarkennd þegar ég þarf að tala um húsnæðismál við forvera minn í embætti, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Varðandi félagslegu íbúðirnar sem hún nefndi áðan þá hefur bygging verið hafin á árinu. Þrátt fyrir þau áform sem uppi voru við síðustu fjárlagagerð hefur ekki verið byrjað á nema innan við 200 íbúðum á þessu ári. Innan við 200 íbúðum. Það er vegna þess að mönnum sýnist að sá kostur sé ekki nógu vænlegur. Á næsta ári verður fjármagn til reiðu samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem hér er til meðferðar til 220 íbúða.